Mikið hefur verið fjallað um einföldun regluverks á fjármálamarkaði síðustu misseri, bæði hér á landi og í Evrópu. Ástæðan er augljós: Flókið, umfangsmikið og þungt regluverk getur dregið úr samkeppnishæfni, nýsköpun, sameiginlegum skilningi og skilvirkni – án þess endilega að auka fjármálastöðugleika eða aðra verndarhagsmuni. Þvert á móti þá eru reglurnar orðnar svo flóknar að því flækjustigi fylgir áhætta ein og sér. Á sama tíma er ljóst að skýrar og samræmdar leikreglur eru nauðsynlegur þáttur fyrir traust og heilbrigði fjármálamarkaðar. Áskorunin felst því ekki í því hvort regluverks sé þörf, heldur hvernig það er hannað, innleitt og einfaldað.
Margir talað – flækjustig dylst engum
Forstjórar fjármálaeftirlita á Norðurlöndunum sendu árið 2024 sameiginlegt bréf til Evrópskra eftirlitsstofnana þar sem lýst var yfir áhyggjum af umfangi og flækjustigi þess regluverks sem gildir um fjármálastarfsemi innan Evrópusambandsins. Í júlí 2025 rituðu sömu aðilar sameiginlega bréf og beindist það jafnframt að mikilvægi einföldunar regluverks.
Í pólitísku stefnuskjali framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fyrir árin 2024-2029 hefur verið sett í forgang að einfalda regluverk og auka skilvirkni við innleiðingu þess. Evrópsku bankasamtökin hafa einnig bent á að veruleg hætta sé á að ofregluvæðing komi niður á samkeppnishæfni Evrópu og að evrópskt fjármálakerfi standi hallari fæti en áður gagnvart Asíu og Bandaríkjunum þegar kemur að samkeppnihæfni. Systursamtök SFF á Norðurlöndunum hafa einnig bent á að núverandi löggjöf sé alltof umfangsmikil og að flækjustig sé sérstakur áhættuþáttur.
Þrátt fyrir að mikið hafi verið sagt þá hefur í dag einungis 11% tillagna úr Draghi-skýrslunni verið hrint í framkvæmd. Mögulega meira talað en gert?
Á evrópskum vettvangi hefur þessi umræða verið sett í samhengi í skýrslum Enrico Letta og Mario Draghi. Í Letta-skýrslunni er lögð áhersla á að innri markaður Evrópu nýtist ekki til fulls vegna flókins og ósamræmds regluverks, þar á meðal á fjármálamarkaði. Draghi-skýrslan dregur fram að Evrópa standi frammi fyrir samkeppni við önnur hagkerfi þar sem aðgengi að fjármagni er betra, reglur einfaldari og fjármálamarkaðir dýpri. Niðurstaðan er skýr: Aðgengilegar, samræmdar og skýrar leikreglur á Evrópskum fjármálamarkaði eru forsenda fyrir auknum vexti og framleiðni. Þrátt fyrir að mikið hafi verið sagt þá hefur í dag einungis 11% tillagna úr Draghi-skýrslunni verið hrint í framkvæmd. Mögulega meira talað en gert?
Hérlendis hefur ríkisstjórnin boðað einföldun, m.a. í drögum að atvinnustefnu stjórnvalda til 2030. Í umsögn sinni um stefnuna styðja SFF við boðaða einföldun. Samtökin hafa ítrekað bent á að flóknar reglur leiði ekki endilega af sér meira öryggi heldur séu þær fremur til þess fallnar að verða sérstakur áhættuþáttur. Það hefur allt í senn margþætt áhrif á eftirlitsaðila, fjármálafyrirtæki og viðskiptavini þeirra.
Af hverju er einföldun mikilvæg – er þetta eitthvað flókið?
Umfang innleiðingar Evrópureglna sem tengjast fjármálamörkuðum hefur aukist stórkostlega á undanförnum árum. Eftir fjármálaáfallið 2008 var innleiddur mikill fjöldi nýrra reglna til að styrkja fjármálakerfið. Árin 2019–2024 voru t.a.m. settar um 13.000 nýjar reglur og leiðbeiningar í evrópskum bankarekstri, sem samsvarar um 15.000 blaðsíðum af reglum eða tvöfalt meira en bættist við á fimm ára tímabilinu á undan. Þessar tölur gefa til kynna að reglubyrðin hefur ekki aðeins aukist, heldur jafnframt að aukningin hafi átt sér stað á skömmum tíma.
Fram hefur komið opinberlega af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að á árunum 2018 til 2023 hafi nærri 700 reglur tengdar fjármálamörkuðum verið innleiddar í EES-samninginn eða að jafnaði um 140 á ári hverju. Frá gildistöku EES-samningsins árið 1994 fram til ársins 2018 voru til samanburðar innleiddar 196 reglur á fjármálamarkaði, eða innan við tíu á ári að jafnaði. Þessu til viðbótar má nefna að samkvæmt ársritum Fjármáleftirlits Seðlabankans frá árunum 2023-2025, nam samanlagður fjöldi nýrra laga og reglna um 150, að frátöldum viðmiðunarreglum og leiðbeinandi tilmælum á sama tímabili.
Heildarumfang regluverks á evrópskum fjármálamarkaði hefur náð áður óþekktum hæðum. Dæmi eru um úttektir sem hafa leitt í ljós að regluverkið samanstandi af um 1.629 lagaskjölum sem spanna um 95.500 blaðsíður. Í umfjöllun um umfang regluverks hefur Biblían verið höfð til samanburðar hvað lengd varðar, en þess má geta að heildarumfang regluverks á evrópskum fjármálamarkaði nálgast að vera á við 50 Biblíur.
Í skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið Intellecon vann fyrir SFF á síðasta ári, kom fram að áætla mætti að það færu að jafnaði 80 til 100 ársverk hjá innlendum fjármálafyrirtækjum í að fylgjast með og innleiða lagabreytingar í starfseminni og 50 til 60 ársverk í ýmis skýrsluskil og svör við gagnabeiðnum opinberra aðila. Til að setja þetta í áþreifanlegt samhengi hefur því verið fleygt fram að ef fjármálaregluverkið í Evrópu yrði prentað út og því raðað blaðsíðu fyrir blaðsíðu, myndi það ná yfir einn kílómetra. Hvort sem það er orðum aukið, eða ekki, þá er ljóst að það hlýtur að vera fjöldi tækifæra til einföldunar í þágu skýrleika og skilvirkni.
Látum verkin tala 2026
SFF leggja áherslu á að ríkur vilji sé til þess að starfa eftir ramma evrópskrar fjármálalöggjafar. SFF telja þó nauðsynlegt að horfast óhikað í augu við það að regluverk á fjármálamarkaði er orðið óþarflega umfangsmikið. Það eru tækifæri til einföldunar. Einnig er mikilvægt að horfa til smæðar Íslands og ganga ekki lengra í innleiðingu löggjafar en nauðsyn krefur hérlendis.
Heildarumfang regluverks á evrópskum fjármálamarkaði hefur náð áður óþekktum hæðum. Dæmi eru um úttektir sem hafa leitt í ljós að regluverkið samanstandi af um 1.629 lagaskjölum sem spanna um 95.500 blaðsíður.
SFF fara bjartsýn inn í nýtt ár, fullviss um að stjórnvöld láti verkin tala og leiti allra mögulegra tækifæra til þess að ganga hratt til verks í einföldun regluverks. Það er jákvætt að sjá þau skref sem Evrópusambandið hefur tekið með sex aðgerðarpökkum sem miða að því að einfalda löggjöf (svonefndar Omnibus-tillögur). Ekki er seinna vænna að hefjast handa við einföldun löggjafar, reglna og tilmæla, sem hafa innleitt ríkari kröfur í landsrétt en nauðsyn stóð til og afnema séríslenskar lagareglur á fjármálamarkaði. Í þessu samhengi má nefna 24 ábendingar SFF um gullhúðun og tillögur samtakanna til einföldunar löggjafar sem lagðar verða fram í upphafi nýs árs, við höfum væntingar til þess að litið verði til þessa og gerðar breytingar. Tækifæri til einföldunar má einnig finna í stjórnsýsluframkvæmd, leiðbeiningum og fræðslu til markaðarins.
Við hljótum öll að vilja búa við skilvirkt, skýrt og aðgengilegt regluverk. Gangi það eftir styður það við forsendur þess að innlend fjármálaþjónusta geti áfram stuðlað að bættum lífskjörum og aukinni framleiðni hér á landi. Eyðum sóun, stuðlum að skilvirkni og aukum árangur á nýju ári!
Höfundur er yfirlögfræðingur Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.


