Áskorun

Ein­mana um jólin og sex góð ráð

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það þarf enginn að skammast sín fyrir að vera einmana. Því einmanaleiki er svo algengur að talað er um einmanaleika sem einn stærsta faraldinn í heiminum. Hér eru nokkur ráð til að sporna við einmanaleikanum.
Það þarf enginn að skammast sín fyrir að vera einmana. Því einmanaleiki er svo algengur að talað er um einmanaleika sem einn stærsta faraldinn í heiminum. Hér eru nokkur ráð til að sporna við einmanaleikanum. Vísir/Getty

Það þykir ekki töff að segjast vera einmana og þó er einmanaleiki faraldur um allan heim.

 Að segjast vera einmana er eitthvað sem fólk óttast oft að vera dæmt fyrir. Jafnvel að fólk haldi að það sé þá svona leiðinlegt.

Að vera einmana snýst reyndar ekkert um að vera einn. Í umfjöllunum Vísis um einmanaleika hefur til dæmis komið fram að sumir eru mjög einmana þótt þeir séu í hjónabandi. Og skammast sín fyrir að upplifa sig einmana vegna þess að þeir eru giftir og eiga fjölskyldur.

Einmanaleikatilfinningin getur verið mjög sár og vond og ekkert feimnismál að ræða þessa tilfinningu við lækni eða annan fagaðila. Fyrir þessi jól, er líka fínt að renna yfir eftirfarandi lista af góðum ráðum frá Psychology Today.

1. Mér líður eins og mér líður

Allar tilfinningar eiga rétt á sér, líka þær erfiðu. Að reyna að bægja frá tilfinningum er verri leið en að samþykkja þær og viðurkenna að þær eigi líka rétt á sér. Það slakar á taugakerfinu okkar að einfaldlega segja: Mér líður eins og mér líður og það er allt í lagi.

2. Þú ert ekki ein/n í einmanaleikanum

Þótt það hljómi kannski skringilega, þá getur það hjálpað okkur í einmanaleikanum að átta okkur á því að þessi mannlega líðan okkar að vera einmana, er ekki eitthvað sem aðeins við erum að upplifa. Heldur milljónir um allan heim. Og þú ert partur af þessum heimi eins og hver annar.

3. Nærandi félagsskapur og tengsl

Um jólin höfum við jafnvel meiri þörf fyrir félagsskap og tengsl við annað fólk en á öðrum tímum. Þótt okkur líði þannig að við séum ein og jafnvel utangátta, er gott fyrir okkur að reyna að rækta tengslin okkar eins og mögulegt er. Hvort sem það er að mæta í jólaboð, hringja í einhvern eða fara eitthvað þar sem við sjáum annað fólk.

4. Gaman, skemmtilegt, gefandi

Hvað finnst þér gaman að gera? Hvað vekur kátínu, gleði eða unun hjá þér? Að lesa bók, horfa á þátt, fara út að labba, kveikja á kerti, skrá okkur á námskeið, skrifa í dagbók, gera markmiðalista fyrir næsta ár, draumaspjald, hreyfa okkur, elda, baka, pússla, lita. Hér er um að gera að skipuleggja eitthvað fyrir jóladagana sem okkur finnst gaman að gera.

5. Félagssleg tengsl og valkostir

Það er hægt að rækta félagsleg tengsl sem geta virkað mjög gefandi fyrir okkur. Allt frá því að skrá okkur í tíma í ræktinni yfir í að taka þátt í félagsstarfi, góðgerðarfélögum eða öðru. Þú ert í ökumannssætinu og spurning hvort það sé einhver vegferð í þessum efnum sem þér finnst falla vel að þér? Jafnvel gamall draumur sem upplagt væri að dusta rykið af...

6. Að æfa þakklæti

Það hljómar kannski skringilega að tala um þakklæti þegar við erum að ræða um einmanaleika. En staðreyndin er sú að það að æfa okkur í þakklæti, spornar gegn einmanaleikatilfinningunni. Það er nefnilega alltaf hægt að finna eitthvað sem við erum þakklát fyrir. Spurningin er bara hvað?


Tengdar fréttir

Hjónabönd 50+: „Ekki gott ef gremjubankinn stækkar og stækkar“

„Þegar fólk hefur verið saman í áratugi er ekkert ólíklegt að ýmislegt hafi safnast í gremjubankann í gegnum tíðina,“ segir Íris Eik Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi fjölskyldu- og sálfræðiþjónustunnar Samskiptastöðin.

Erfitt að vera mikið einn í vinnu og án mikilla samskipta

Við gerum okkur oft ekki grein fyrir því hvað það eru margir sem vinna einir. Til dæmis í lítilli verslun eða sjoppu, iðnaðarmenn, fólk í sérhæfðum störfum eins og þýðendur eða fólk í fjarvinnu. Fólk í viðgerðarþjónustu og fleira.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.