Neytendur

Kvartanir berast í hverri viku vegna gjafabréfa

Tómas Arnar Þorláksson og Sunna Sæmundsdóttir skrifa
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. vísir/einar

Neytendasamtökunum berast í hverri viku kvartanir vegna gildistíma gjafabréfa og flestar eru vegna fyrirtækjanna Dineout og Óskaskríns. Formaður samtakanna segir gjafabréfin ekkert annað en fjárkröfu sem eigi að gilda í fjögur ár.

Gjafabréf hafa lengi verið vinsæl gjöf og færst hefur í vöxt að fyrirtæki eða stofnanir gefi starfsfólki slíkt í jólagjöf. Gjafirnar virðast þó ekki allar nýtast þar sem Neytendasamtökunum berast ítrekað kvartanir frá fólki sem lendir á vegg þegar að það ætlar að innleysa bréfin.

„Þetta er handfylli af kvörtunum sem við fáum í hverri viku og fyrirspurnum líka,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Flestar kvartanir varða gildistíma gjafabréfa sem hvergi er fjallað um í lögum. Neytendasamtökin hafa þó verið þeirrar skoðunar að gildistíminn eigi að vera að minnsta kosti fjögur ár, líkt og almennur fyrningarfrestur á kröfum.

„Í rauninni er engin ástæða fyrir því að þau ættu að renna út. Fyrirtækin eru komin með fjármuni inn í reksturinn sinn og geta ávaxtað hann og notað hann á meðan neytandinn er ekki búinn að njóta þjónustunnar eða vörunnar sem hann þó er með bréf upp á að hann eigi. Ég vil sjá að heiðvirð fyrirtæki setji sér sjálf þessar reglur, að það þurfi ekki að koma alltaf reglur að ofan, að fyrirtækin vinni með neytendum og séu með alvöru fyrningarfrest eins og á venjulegum fjárkröfum.“

Áður fyrr vörðuðu flestar kvartanir flugfélög en eftir að Icelandair lengdi gildistíma gjafabréfa sinna upp í fimm ár heyra þær sögunni til. Í dag eru flestar vegna Dineout og Óskaskríns en gildistími gjafabréfa beggja fyrirtækja er tvö ár. Óskaskrín býður viðskiptavinum að framlengja gildistímann um sex mánuði gegn gjaldi.

Að mati Breka ættu fyrirtæki sem ekki treysta sér til að hafa lengri gildistíma á gjafabréfum að sleppa því að selja þau. Hann hvetur neytendur einnig til þess að forðast gjafabréf með stuttum gildistíma og láta reyna á þau, þrátt fyrir að bréfin séu útrunnin.

„Flest fyrirtæki láta nú segjast þegar neytendur koma með gjafabréf, jafnvel þó það sé útrunnið. Það vilja þau leita leiða og finna leiðir yfirleitt til að báðir geti gengið sáttir frá borði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×