Fótbolti

Syrgir góðan fé­laga í Åge: „Ótrú­lega leiðin­legt að hann sé nú farinn“

Aron Guðmundsson skrifar
Jörundur Áki Sveinsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ, minnist Åge Hareide, fyrrverandi landsliðsþjálfara Íslands, með hlýju.
Jörundur Áki Sveinsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ, minnist Åge Hareide, fyrrverandi landsliðsþjálfara Íslands, með hlýju. Vísir/Anton Brink

Åge Hareide, fyrr­verandi lands­liðsþjálfari ís­lenska karla­lands­liðsins í fót­bolta lést í gær, 72 ára að aldri, eftir snarpa baráttu við krabba­mein. Jörundur Áki Sveins­son, yfir­maður knatt­spyrnumála hjá KSÍ syrgir góðan félaga sem átti magnaðan þjálfara­feril en var fyrst og fremst góð manneskja.

Innan við mánuður er síðan að greint var frá því að Hareide hefði greinst með krabba­mein í heila og í gær sagði sonur hans, Bendik, frá því að Åge væri látinn. Hann hefði sofnað svefninum langa um­vafinn sínum nánustu.

Åge átti farsælan feril sem leik­maður sem lands­liðs- og at­vinnu­maður en sem þjálfari átti hann eftir að ná enn eftir­tektar­verðir árangri þar sem að hann vann lands­titla hjá stór­liðum í Noregi, Dan­mörku og Svíþjóð. Þá stýrði hann lands­liði Noregs og kom danska lands­liðinu í tví­gang á stór­mót. Síðasta starf Åge á ferlinum var sem lands­liðsþjálfari Ís­lands og þar hitti hann fyrir Jörund Áka, yfir­mann knatt­spyrnumála hjá KSÍ, sem segir það sorgar­tíðindi að Åge sé nú fallinn frá.

Klippa: Syrgir góðan félaga í Åge Hareide

„Åge er stór persónu­leiki sem kom hér inn í smá ólgu­sjó og gerði margt mjög gott. Við bara vottum fjöl­skyldu hans okkar dýpstu samúð,“ segir Jörundur Áki í sam­tali við íþrótta­deild Sýnar.

Jörundur var strax á þeirri skoðun eftir sinn fyrsta fund með Åge á Skír­dag árið 2023 í Osló að hann ætti að verða næsti lands­liðsþjálfari Ís­lands. Åge átti eftir að setja sitt mark á liðið en tók við á krefjandi tíma­punkti, hann fór í vinnu við að endur­nýja hópinn að hluta til og að veita yngri leik­mönnum meiri séns, þar með talið núverandi lands­liðs­fyrir­liðanum Orra Steini Óskars­syni.

Jörundur og Age ræða saman í einu af landsliðsverkefnum Norðmannsins með íslenska landsliðiðVísir/Getty

Ís­land var nálægt því að komast á Evrópumót undir stjórn Åge en tap í úr­slita­leik um­spils Þjóða­deildarinnar gegn Úkraínu sá til þess að það varð ekki raunin.

„Hann var bara ótrú­lega flottur, auðmjúkur, kraft­mikill, orku­mikill, skap­stór en yndis­leg manneskja. Hann hafði ein­hvern veginn bara allan pakkann. Með gríðar­lega ástríðu fyrir fót­bolta en samt sem áður var hann líka auðmjúkur, mjúkur maður og til­finninga­mikill. Það skipti hann máli að öllum í kringum hann liði vel, hann var fyrst og fremst bara frábær manneskja.“

Jörundur og Åge ræddu oft saman eftir að Norðmaðurinn lét af störfum sem landsliðsþjálfari Íslands. 

„Ótrú­lega leiðin­legt að hann sé nú farinn því Åge hafði hug á því að gera svo margt skemmti­legt núna þegar hann var hættur að þjálfa. Hann var búinn að bjóða okkur í heimsókn, við vorum alltaf á leiðinni til hans en svona er bara lífið. Við höldum áfram. Höldum nafni hans á lofti hér.“

Farið verður nánar yfir feril Åge Hareide í Sport­pakkanum að loknum kvöld­fréttum Sýnar í kvöld og rætt við Jörund Áka sem og fyrr­verandi að­stoðarþjálfara Åge hjá ís­lenska lands­liðinu, Davíð Snorra Jónas­son.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×