Viðskipti innlent

Eldi verður eitt stærsta fé­lag sinnar tegundar í heiminum

Árni Sæberg skrifar
Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar og stjórnarformaður Eldis.
Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar og stjórnarformaður Eldis. Nasdaq Iceland

Hampiðjan hefur sameinað alla starfsemi sína í fiskEldi undir nafninu Eldi. Félagið verður með höfuðstöðvar í Noregi og verður eitt stærsta félag heims í sölu til og þjónustu við fiskEldi.

Í tilkynningu Hampiðjunnar til Kauphallar segir að sala til og þjónusta við fiskeldi hafi verið vaxandi þáttur í starfsemi Hampiðjunnar undanfarin ár. Með kaupunum á Vonin í Færeyjum árið 2016 hafi fiskeldið orðið mikilvægur þáttur í rekstri samstæðunnar og með kaupunum á Mørenot 2023 hafi mikilvægi fiskeldisins vaxið enn frekar. Haustið 2024 hafi Fiizk Protection komið inn í samstæðuna en það fyrirtæki hanni og framleiði lúsapils til að verjast ágangi laxalúsar.

113 milljónir evra í ár

Salan til fiskeldis hafi verið um 27 prósent af heildartekjum Hampiðjusamstæðunnar á árinu 2024 eða um 86 milljónir evra. Á fyrstu þremur ársfjórðungum þessa árs sé salan orðin 88 milljónir evra og verði að öllum líkindum nálægt 113 milljónir evra á þessu ári.

Kaupin á indverska fyrirtækinu Kohinoor fyrr í ár sé síðan lykilþáttur í framleiðslu á búnaði til fiskeldis og þar vegi þyngst hagkvæm framleiðsla á fiskeldispokum, sem sé afar mannaflafrek framleiðsla.

„Nú er komið að því að sameina starfsemi sem tengist fiskeldinu í eitt alþjóðlegt félag og það félag hefur fengið nafnið Eldi. Höfuðstöðvar Eldi verða í Noregi og móðurfélagið verður Eldi Holding. Umfangsmesta starfsemin er eðlilega í Noregi sem er stærsta laxeldisland heims.“ 

Innan Eldi verði sjö dótturfyrirtæki, sem séu í Kanada, á Íslandi, í Færeyjum, Noregi, Skotlandi og Spáni. Til viðbótar séu nýstofnað fyrirtæki í Síle og tvö önnur sem verði stofnuð á næstu vikum í Óman og Sádi Arabíu. Það verði því tíu fyrirtæki sem mynda Eldi á næstu misserum. Eldi sé alfarið í eigu Hampiðjunnar, bæði beint og í gegnum dótturfyrirtækin Vónin í Færeyjum og Mørenot í Noregi. Öll fyrirtækin innan Eldis muni fá það fornafn og seinni hluti nafnsins verði landsnafn viðkomandi fyrirtækis og dæmi um það séu Eldi Iceland, Eldi Canada, Eldi Norway og svo framvegis.

Fjórtán þjónustustöðvar

Framkvæmdastjóri Eldis verði Thomas Berg Myrvold en hann hafi verið framkvæmdastjóri Mørenot Aquaculture þegar Hampiðjan eignaðist Mørenotsamstæðuna. Stjórnarformaður Eldis verði Hjörtur Erlendsson forstjóri Hampiðjunnar hf.

„Ekkert annað fyrirtæki, sem sinnir þjónustu við fiskeldi, hefur jafnmargar þjónustustöðvar og Eldi en þær eru til samans 14 talsins og þar er sinnt þvottum á fiskeldispokum, viðgerðum, íburði gróðurvarnarefna og vottunum samkvæmt norska staðlinum NS 9415.“

Starfsmannafjöldi Eldis á heimsvísu verði rúmlega 500 manns en heildarfjöldi starfsmanna Hampiðjunnar sé nú um 2.700.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×