Erlent

Ár­leg tann­lækna­heim­sókn á brúsa danska ríkisins

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Dönsk stjórnvöld vilja hveta Dani til að vera duglegri að fara til tannlæknis.
Dönsk stjórnvöld vilja hveta Dani til að vera duglegri að fara til tannlæknis. vísir/vilhelm

Dönsk yfirvöld leggja til að bjóða upp á gjaldfrjálsa tannlæknaheimsókn einu sinni á ári. Markmiðið sé að bæta tannheilsu þjóðarinnar.

Með nýrri tillögu hyggjast dönsk stjórnvöld verja 1,6 milljörðum danskra króna, tæpum 32 milljörðum íslenskra króna, í tannheilsu þjóðarinnar og greiða fyrir eina tannlæknaheimsókn á ári.

„Fyrir suma er fjárhagurinn hindrun. Þess vegna er það bylting að við munum nú koma á fót og gefa öllum Dönum tannlæknareikning. Við erum að nota skattfé hins opinbera á skynsamlegri og betri hátt til að tryggja betri tannheilsu Dana,“ segir Sophie Lodhe, heilbrigðisráðherra Danmerkur, í samtali við DR.

„Við viljum að Danir séu duglegri við að fara reglulega til tannlæknis svo við getum komið í veg fyrir að lítil vandamál verði stærri.“

Danirnir fá á milli 450 og 850 danskar krónur, tæpar níu þúsund til tæpar sautján þúsund íslenskar krónur, á sérstakan reikning ár hvert sem hægt er að nýta í tannlæknaheimsókn. Fjármögnunin eigi að koma úr sjóði sem greiðir fyrir mismunandi meðferðir fullorðinna Dana hjá tannlækni.

Að sögn tannlæknisins Bjorn Anderson er yngra fólk ekki duglegt að fara til tannlæknis en mætir síðan með vandamál sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×