Erlent

Segir hættu á að nauðgunarlöggjöf verði beitt í hefndar­skyni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Salvini og Meloni, leiðtogar stjórnarflokkanna, ráða ráðum sínum.
Salvini og Meloni, leiðtogar stjórnarflokkanna, ráða ráðum sínum. Getty/SOPA/Stefano Constantino

Ítalska þingið hefur frestað umræðum um frumvarp sem átti að festa samþykki í lög. Frumvarpið byggir á samkomulagi forsætisráðherrans Giorgiu Meloni og helsta andstæðings hennar, Elly Shclein, leiðtoga Demókrata en það var aðstoðar forsætisráðherrann Matteo Salvini sem kom í veg fyrir framgang þess.

Samþykkt frumvarpsins, sem hlaut afgreiðslu í neðri deild þingsins í síðustu viku, hefði gert það að verkum að kynmök án samþykkis hefðu verið skilgreind sem nauðgun og varðað allt að tólf ára fangelsi. Salvini, leiðtogi Bandalagsins, sagði lögin hins vegar myndu verða til þess að teppa dómskerfið.

Þá væri hætta á því að lögin væru nýtt í hefndarskyni.

Eins og sakir standa er kynferðisofbeldi skilgreint þannig í lögum á Ítalíu að um sé að ræða að einhver sé þvingaður til kynmaka undir hótunum eða ofbeldi. Það hefur ekki verið hægt að bera því við að samþykki hafi skort. Þetta gerir það að verkum að konur sem upplifa algjört máttleysi og geta ekki spornað við verknaðinum, hafa ekki fengið réttlætinu fullnægt.

Salvini segist styðja lögin en gera þurfi breytingar á frumvarpinu. Eins og er sé það háð einstaklingsbundnum túlkunum hvort um kynferðisofbeldi sé að ræða. Þannig opni það á að konur og menn noti lögin til að ná fram hefndum.

Ráðherrar í ríkisstjórninni segja málið munu fara í gegn eftir lagfæringar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×