Innlent

Lýsti Ís­landi sem „augum og eyrum“ Nató

Kjartan Kjartansson skrifar
Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, með Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra, í Stjórnarráðinu í dag.
Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, með Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra, í Stjórnarráðinu í dag. Vísir/Vilhelm

Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins lýsti Íslandi sem „augum og eyrum“ bandalagsins í Atlantshafi eftir fund hans og forsætisráðherra í dag. Honum þótti mikið koma til heimsóknar sinnar á öryggissvæðið við Keflavíkurflugvöll.

Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, og Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, ræddu við fréttamenn eftir fund þeirra nú um miðjan dag. Þar lýsti Rutte ánægju sinni með heimsóknina til Íslands, þeirrar fyrstu sem framkvæmdastjóri NATO.

„Sem land eruð þið augu og eyru okkar í NATO,“ sagði Rutte og vísaði sérstaklega til loftrýmisgæslunnar sem er sinnt frá Keflavíkurflugvelli.

Í heimsókn sinni á öryggissvæðið sagði Rutte að það hefði vakið sérstaka athygli sína hve vel fulltrúa allra ríkja sem þar starfa báru Íslendingum söguna um hvernig þeir styddu herlið þeirra.

Einnig nefndi hann hversu stöndugir og hagkvæmir varnargarðarnir sem reistir voru í kringum Grindavík í eldhræringunum væru en Rutte flaug yfir Reykjanes með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra, fyrr í dag.

Mikilvægt að Rutte sæi framlag Íslands

Kristrún lagði áherslu á hvernig NATO gæti tekið þátt í innviðauppbyggingu sem gagnaðist samfélaginu og vísaði til viljayfirlýsingar um tíu milljarða fjárfestingu í stækkun olíubirgðastöðvar bandalagsins í Helguvík fyrr í dag.

Þá teldi hún það mikilvægt að Rutte sæi hvernig Íslendingar sinntu öryggis- og varnarmálum til þes að auka getu NATO. Íslendingar sæju þá að það sem þeir gerðu virkaði áður en þeir efldu sig enn frekar.

Ræddu Rutte og Kristrún bæði um vilja íslenskra stjórnvalda til þess að auka framlög sín til öryggis- og varnarmála þannig að þau verði nær 1,5 prósentum af vergri landsframleiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×