Viðskipti innlent

Sögðu upp öllum starfs­mönnum Vélfags sem eftir voru

Kjartan Kjartansson skrifar
Höfuðstöðvar Vélfags á Akureyri. Fyrirtækið selur ýmsan tæknibúnað sem tengist sjávarútvegi.
Höfuðstöðvar Vélfags á Akureyri. Fyrirtækið selur ýmsan tæknibúnað sem tengist sjávarútvegi. Vélfag

Á annan tug starfsmanna Vélfags á Akureyri sem eftir voru var sagt upp störfum í morgun. Stjórnarformaður þess segir félagið ekki gjaldþrota en það sé óstarfhæft vegna þess að reikningar þess séu frystir í þvingunaraðgerðum sem beinast að Rússum.

Alfreð Tulinius, stjórnarformaður Vélfags, staðfestir að sautján til átján manns sem enn störfuðu hjá fyrirtækinu hafi verið sagt upp í morgun.

Starfsmennirnir hafi verið 35 talsins áður en Arion banki frysti reikninga þess í sumar vegna tengsla meirihlutaeiganda Vélfags við rússneskt félag á þvingunarlista Evrópusambandsins en þeim hafði fækkað með nokkrum uppsögnum síðustu mánuðina.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði íslenska ríkið af kröfu Vélfags um endurskoðun frystingarinnar í vikunni. Þeim dómi hefur verið áfrýjað til Landsréttar en einnig hefur verið farið fram á að Hæstiréttur taki málið beint upp. 

Þá segir Alfreð að Arion banka verði stefnt til þess að fá frystingunni aflétt. Dómurinn staðfesti að það væri í verkahring bankans að taka afstöðu til þess en ekki utanríkisráðuneytisins.

„Alveg sama hver niðurstaða dómsins er þá er búið að murka lífið úr fyrirtækinu,“ segir Alfreð.

Í tilkynningu sem birtist á Facebook-síðu Vélfags  kemur fram að stjórnendur þess ætli að leitast við að halda fyrirtækinu lifandi á meðan málaferli standa yfir og tryggja að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart starfsfólki, birgjum og þjónustuaðilum.

Fréttin verður uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×