Viðskipti innlent

Ó­vænt verðbólguhjöðnun leiði vonandi til vaxtalækkunar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá Íslandsbanka, segir verðbólgumælingu fyrir nóvembermánuð hafa komið á óvart. Afsláttardagar höfðu sitt að segja.
Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá Íslandsbanka, segir verðbólgumælingu fyrir nóvembermánuð hafa komið á óvart. Afsláttardagar höfðu sitt að segja. Vísir/Vilhelm

Verðbólga hjaðnar hressilega milli mánaða og mælist nú 3,7 prósent. Hagfræðingur í greiningardeild Íslandsbanka segir mælinguna koma á óvart og haldi þróunin áfram líti allt út fyrir að stýrivextir haldi áfram að lækka.

Verðbólga lækkar úr 4,3 prósentum í 3,7 og hefur ekki mælist minni í fimm ár. Hún er þannig komin niður fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans.

„Vísitala neysluverðs lækkaði þvert á spár í morgun þannig að ég viðurkenni að þetta kom á óvart en mjög jákvæð tíðindi,“ segir Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur í greiningardeild Íslandsbanka. 

Fram kemur í tilkynningu á vef Hagstofunnar að þyngst vegi flugfargjöld, sem lækkuðu um 14,3 prósent. Eins virðast afsláttardagar í nóvember hafa haft sitt að segja.

„Það virðist sem að afsláttardagar í nóvember hafi haft sitt að segja, til dæmis var dagur einhleypra akkúrat inni í verðmælingarviku Hagstofunnar þannig að það hefur haft sitt að segja í þessari mælingu. Það getur samt verið skammgóður vermir því þau munu líklega ganga til baka eitthvað í næsta mánuði.“

Hún segist þó bjartsýnni í dag en í gær á verðbólguhorfur. Gera má ráð fyrir að vísitalan gangi eitthvað til baka í næsta mánuði, eins og hún gerir iðulega í desember. Mælingin sé þó mjög jákvæð.

„Við hljótum öll að hafa fundið vel fyrir mikilli verðbólgu síðustu ár og viljum öll að hún komist við markmið sem fyrst. Einnig getur þetta haft áhrif á stýrivaxtaákvarðanir,“ segir Bergþóra.

„Við sjáum líka að undirliggjandi verðbólga er að lækka, sem er jákvætt, og Seðlabankinn horfir mkið á undirliggjandi verðbólgu til að meta verðbólguþrýstinginn. Þetta gæti orðið til þess að þau haldi áfram að lækka vexti í næstu ákvörðunum.“


Tengdar fréttir

Kallar eftir aukafundi peningastefnunefndar

Formaður Starfsgreinasambandsins segir óvænta hjöðnun verðbólgu um 0,6 prósentustig milli mánaða frábær tíðindi, þrátt fyrir að hún sé til marks um það hversu mikið er að hægjast á íslensku efnahagslífi. Hann kallar skýlaust eftir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands komi saman á aukafundi og lækki stýrivexti.

Verðbólga hjaðnar hressilega

Verðbólga mælist nú 3,7 prósent eftir að hafa mælst 4,3 prósent í síðasta mánuði. Verðbólga hefur ekki verið minni síðan í desember árið 2020. Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í nóvember 2025, er 658,2 stig og lækkar um 0,48 prósent frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 523,4 stig og lækkar um 0,81 prósent frá október 2025.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×