Fótbolti

Flokkarnir fyrir HM-drátt: Leiðin gerð svo að fjögur bestu mætist seint

Sindri Sverrisson skrifar
Argentína vann Frakkland í úrslitaleik HM 2022. Liðin munu ekki geta mæst fyrr en í undanúrslitum á HM næsta sumar, ef þau vinna sína riðla.
Argentína vann Frakkland í úrslitaleik HM 2022. Liðin munu ekki geta mæst fyrr en í undanúrslitum á HM næsta sumar, ef þau vinna sína riðla. Getty/David Ramos

Það skýrist eftir tíu daga hvernig riðlarnir munu líta út á HM karla í fótbolta næsta sumar. FIFA tilkynnti í dag hvernig styrkleikaflokkarnir líta út og greindi frá nýjung sem auka á líkurnar á að efstu landslið heimslistans mætist ekki snemma á mótinu.

HM, sem nú verður í fyrsta sinn með 48 liðum, fer að mestu fram í Bandaríkjunum en einnig í Mexíkó og Kanada. Gestgjafarnir þrír eru í efsta styrkleikaflokki og verða kúlur þeirra sérmerktar í drættinum, því búið er að ákveða nákvæmlega í hvaða riðlum þeir verða.

Styrkleikaflokkarnir fyrir HM 2026 í fótbolta.FIFA

FIFA ákvað einnig, í fyrsta skipti, að setja sérstakar skorður varðandi fjögur bestu landsliðin á heimslistanum. Spánn (1. sæti) og Argentína (2. sæti) eru þannig „pöruð saman“ og geta ekki mæst fyrr en í úrslitaleiknum, ef þau vinna sína riðla.

Frakkland (3. sæti) og England (4. sæti) eru einnig pöruð og geta því að sama skapi ekki mæst fyrr en í úrslitaleiknum, og ekki mætt Spáni eða Argentínu fyrr en í undanúrslitum, ef þessi lið vinna hvert sinn riðil.

Sex sæti laus fram í lok mars

Enn eru sex laus sæti á HM sem barist verður um í umspilinu í lok mars. Fjögur fara til Evrópuþjóða, mögulega Íranna hans Heimis Hallgrímssonar, og tvö til þjóða úr öðrum heimsálfum. Liðin sem komast á HM í gegnum umspil eru öll í fjórða og neðsta styrkleikaflokki fyrir dráttinn, ásamt til að mynda nýliðum Curacao, Jórdaníu og Grænhöfðaeyja. Nýliðar Úsbekistan eru í 3. flokki.

Dregið verður í tólf fjögurra liða riðla og er reglan sú að ekki séu fleiri en ein þjóð úr hverri heimsálfu í hverjum riðli. Undanþága er þó varðandi fjóra riðla sem verða með tveimur Evrópuþjóðum.

Styrkleikaflokkar fyrir HM-drátt 5. desember:

Flokkur 1: Bandaríkin, Mexíkó, Kanada, Spánn, Argentína, Frakkland, England, Portúgal, Brasilía, Holland, Belgía, Þýskaland.

Flokkur 2: Króatía, Marokkó, Kólumbía, Úrúgvæ, Sviss, Japan, Senegal, Íran, Suður-Kórea, Ekvador, Austurríki, Ástralía.

Flokkur 3: Panama, Noregur, Egyptaland, Alsír, Skotland, Paragvæ, Fílabeinsströndin, Túnis, Úsbekistan, Katar, Sádi-Arabía, Suður-Afríka.

Flokkur 4: Jórdanía, Grænhöfðaeyjar, Gana, Curacao, Haítí, Nýja-Sjáland, UEFA umspil 1, UEFA umspil 2, UEFA umspil 3, UEFA umspil 4, Álfuumspil 1, Álfuumspil 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×