Viðskipti innlent

Hegðun Norður­áls von­brigði og Orku­veitan fari fram á fulla greiðslu

Eiður Þór Árnason skrifar
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar, telur að félagið muni að endingu fá rafmagnið greitt að fullu samkvæmt samningi.
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar, telur að félagið muni að endingu fá rafmagnið greitt að fullu samkvæmt samningi. Vísir/Egill

Norðurál hefur tilkynnt Orkuveitunni um greiðslufall vegna endurtekinna bilana í álveri þess á Grundartanga. Stjórnendur Orkuveitunnar gera ráð fyrir lægri rekstrarhagnaði í ár vegna þessa og að arðgreiðslur lækki um tvo milljarða króna á næsta ári. Álverið er stærsti einstaki viðskiptavinur Orkuveitunnar.

Orkuveitan birti árshlutauppgjör sitt í dag og samkvæmt því varð 6,7 milljarða króna hagnaður af rekstrinum á fyrstu níu mánuðum ársins 2025. Á sama tíma samþykkti stjórn félagsins uppfærða fjárhagsspá eftir tilkynningu Norðuráls um greiðslufall. 

Nú er gert ráð fyrir eins milljarða króna lægri rekstrarhagnaði á yfirstandandi ári samanborið við fyrri fjárhagsspá og niðurskurði rekstrarkostnaðar um tvo milljarða á næsta ári. Einnig var samþykkt sex milljarða króna lækkun fjárfestinga árið 2026 og lækkun arðgreiðslna um tvo milljarða líkt og áður segir.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitunni. Þar segir að samkvæmt raforkukaupasamningi við Norðurál beri fyrirtækinu að greiða fyrir umsamda orku, hvort sem fyrirtækið nýti hana eða ekki. Þrátt fyrir þetta hafi fyrirtækið nú tilkynnt Orkuveitunni að það muni einungis greiða fyrir það rafmagn sem álverið getur tekið á móti meðan gert er við bilanir.

Hegðun Norðuráls vonbrigði og Orkuveitan fari fram á fulla greiðslu

„Ef marka má þær yfirlýsingar sem eigandi Norðuráls hefur gefið markaðsaðilum í Bandaríkjunum er Norðurál tryggt fyrir sínu tjóni, enda sé þetta almenn bilun. Tilkynning Norðuráls til Orkuveitunnar er hinsvegar á þeim nótum að boðað greiðslufall sé vegna óviðráðanlegra atburða á borð við eldgos eða stríðsátök. Þarna virðist mér ósamræmi,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar, í tilkynningu.

„Við munum fá rafmagnið greitt – á því leikur enginn vafi í mínum huga – en það eru mér mikil vonbrigði að fyrirtækið kjósi að haga sér með þessum hætti, að greiða ekki samkvæmt samningum en gera ráð fyrir að samningsbundin raforka sé tiltæk þegar því hentar,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar, í tilkynningu.

Helstu rekstrartölur úr yfirliti stjórnenda.Orkuveitan

Hagnaður jókst milli ára

Hagnaður varð af rekstri Orkuveitunnar á fyrstu níu mánuðum ársins sem nam 6,7 milljörðum króna líkt og fyrr segir. Á sama tímabili árið 2024 var hagnaðurinn 5,1 milljarður og afkomubatinn því 31%. Rekstrartekjur uxu um 3,9% á tímabilinu milli ára en rekstrarkostnaður um 2,0%, að sögn Orkuveitunnar. 

Veltufé frá rekstri nam 22,1 milljarði króna fyrstu níu mánuðum þessa árs. Það er 6,9% aukning frá fyrra ári.

Árshlutareikningurinn er fyrir samstæðu Orkuveitunnar. Innan hennar eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix.

Fréttin er í vinnslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×