Fótbolti

Messi með mark og stoðsendingaþrennu og liðið tveimur sigrum frá titlinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi fagnar eftir að hafa komið Inter Miami yfir gegn Cincinatti.
Lionel Messi fagnar eftir að hafa komið Inter Miami yfir gegn Cincinatti. getty/Jeff Dean

Lionel Messi kom með beinum hætti að öllum mörkum Inter Miami í 0-4 sigri á Cincinatti. Með sigrinum komst Inter Miami í úrslit Austurdeildar MLS-deildarinnar í fyrsta sinn.

Messi var í miklum ham í leiknum í Cincinatti. Hann kom Inter Miami yfir með skalla á 19. mínútu og í seinni hálfleik lagði hann svo upp þrjú mörk. Tadeo Allendi skoraði tvö þeirra og Mateo Silvetti eitt.

Messi og félagar mæta New York City í úrslitum Austurdeildarinnar. Inter Miami er því aðeins tveimur sigrum frá því að verða bandarískur meistari í fyrsta sinn í sögu félagsins.

„Ég er stoltur af því hvernig liðið spilaði á mjög erfiðum velli gegn erfiðum andstæðingi,“ sagði Javier Mascherano, knattspyrnustjóri Inter Miami, eftir leikinn.

„Leikmennirnir sýndu ótrúlegan karakter og spiluðu nánast fullkominn leik.“

Messi hefur skorað 77 mörk í 83 leikjum síðan hann gekk í raðir Inter Miami í júlí fyrir tveimur árum.

Allt það helsta úr leik Cincinatti og Inter Miami má sjá hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×