Formúla 1

Ó­væntar fréttir frá Las Vegas: Norris og Piastri gætu verið dæmdir úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lando Norris gæti tapað öllum stigum sínum úr kappakstrinum í nótt á einu augabragði.
Lando Norris gæti tapað öllum stigum sínum úr kappakstrinum í nótt á einu augabragði. Getty/Jordan McKean

Dramatískur brottrekstur tveggja efstu manna í baráttunni um heimsbikar ökumanna gæti gert spennuna enn meiri fyrir síðustu tvær keppnir tímabilsins.

Lando Norris er þrjátíu stigum á undan Oscar Piastri, liðsfélaga sínum hjá McLaren, í baráttunni um heimsmeistartitilinn í formúlu 1 en að hámarki 58 stig eru í boði í síðustu tveimur keppnunum. Hugsanlegur brottrekstur gæti hins vegar breytt stöðunni verulega.

Max Verstappen vann Las Vegas-kappaksturinn í nótt og minnkaði forskot Norris á toppnum, en það gæti nú minnkað enn frekar.

Lando Norris og liðsfélagi hans Oscar Piastri eiga nefnilega á hættu að verða dæmdir úr leik í Las Vegas-kappakstrinum vegna tæknilegra brota.

Eftir keppnina kom í ljós að slitkubbarnir á báðum bílum voru undir lágmarksþykkt. Málið hefur verið sent til dómara en venjulega leiðir slíkt til þess að keppendur eru dæmdir úr leik.

Ef þeir verða dæmdir úr keppninni yrði Norris, sem lenti í öðru sæti á eftir Max Verstappen hjá Red Bull, 24 stigum á undan bæði Hollendingnum og Piastri fyrir næstsíðustu keppni tímabilsins í Katar um næstu helgi.

Blaðamannafundi Andrea Stella, liðsstjóra McLaren, eftir keppnina hefur verið seinkað og enginn frá liðinu var tiltækur til að svara fyrirspurnum fjölmiðla.

Að hámarki 58 stig eru í boði í síðustu tveimur kappökstrunum en keppnin í Katar er sprettkeppni.

Eftir Katar fer síðasta keppnin fram í Abú Dabí þann 7. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×