Erlent

Aukin and­staða í Noregi gegn aðild

Kristján Már Unnarsson skrifar
Norska Stórþingið í miðborg Oslóar að sumarlagi.
Norska Stórþingið í miðborg Oslóar að sumarlagi. Peter Mydske/Stortinget

Andstaða gegn aðild að Evrópusambandinu hefur aukist í Noregi og lýsa 49 prósent Norðmanna sig núna andsnúna því að ganga í sambandið. Í samsvarandi könnun í marsmánuði sögðust 43 prósent andvíg aðild Noregs að sambandinu. Andstaðan eykst mest meðal ungs fólks.

Þetta sýnir ný skoðanakönnun sem norska ríkisútvarpið NRK lét gera. Könnunin var gerð síðastliðinn fimmtudag eftir að fréttir bárust af því Evrópusambandið hefði ákveðið að undanskilja Noreg og Ísland ekki frá verndartolli á járnblendi.

Að sama skapi hefur stuðningur við aðild minnkað verulega. Núna sögðust 31 prósent hlynnt aðild en voru áður 37 prósent. 20 prósent sögðust óákveðin.

Spurt var: Ef kosið væri í dag um aðild Noregs að Evrópusambandinu, myndir þú kjósa já eða nei við Evrópusambandinu?

Höfuðstöðvar Evrópusambandsins eru í Brussel í Belgíu.Aldo Pavan/Getty

NRK vekur sérstaka athygli á því að andstaðan við aðild hefur aukist mest meðal ungs fólks. Efasemdir um aðild mælast jafnframt meiri meðal yngri kjósenda en meðal þeirra sem eru fimmtugir og eldri.

Þá kemur fram skýr munur eftir búsetu. Andstaðan er mest í dreifbýlinu. Mesti stuðningur við aðild mælist í Osló og í austanverðum Noregi.

Norska ríkisútvarpið lét einnig spyrja: Að hve miklu leyti telur þú að EES-samningurinn verndi hagsmuni Noregs?

Þar svöruðu 31 prósent „að miklu leyti“, 28 prósent sögðu „að litlu leyti“, 18 prósent sögðu „að mjög litlu leyti“ en 18 prósent voru óákveðin.


Tengdar fréttir

Samþykktu verndartolla sem bitna á Íslandi og Noregi

Aðildarríki Evrópusambandsins samþykktu tillögu um verndartolla á innflutt járnblendi á fundi í morgun. Framkvæmdastjórnin segist ætla að eiga í reglulegu samráði við íslensk og norsk stjórnvöld um aðgerðirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×