Innlent

„Elvis Presley“ skemmti á hjúkrunar­heimili á Sel­fossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Elvis Iceland fór á kostum á Móbergi á Selfossi enda mikil ánægja með heimsókn hans á heimilið.
Elvis Iceland fór á kostum á Móbergi á Selfossi enda mikil ánægja með heimsókn hans á heimilið. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Íbúar og starfsfólk hjúkrunarheimilisins Móbergs á Selfossi dönsuðu og dilluðu sér, sem aldrei fyrr á Elvis Presley tónleikum í gær þegar leikari í gervi Presleys mætti með hans allra vinsælustu lög

Móberg er nýlegt hringlaga hjúkrunarheimili á tveimur hæðum á Selfossi og er rétt við sjúkrahúsið. 60 heimilismenn búa á Móbergi og starfsmenn eru 95. Það var blásið í herlúðra þar í gær þegar söngvari og skemmtikraftur mætti í gervi Elvis Presley og tók nokkur af hans þekktustu lögum. Léttar veitingar voru í boði.

„Og ég náttúrulega kem með músíkina, sem þau elska. Maðurinn var Elvis Presley fæddur 1935. Þetta er það skemmtilegasta, sem ég geri, alveg dásamlegt að syngja og gleðja fólk,“ segir eftirherman, sem kallar sig Elvis Iceland.

Var Elvis góður maður?

„Alveg rosalega, ætli hann hafi ekki verið bestur við alla í kringum sig en vestur við sjálfan sig, við skulum orða það þannig“.

Fjörð var svo mikið á Móbergi að starfsfólkið og nokkrir heimilismenn fóru á dansgólfið og dönsuðu við Elvis Presley.

„Já og allir hér dansa endalaust við Elvis og hlusta á Elvis alla daga þannig að þetta er alveg frábært,“ segir Ásta Tryggvadóttir, deildarstjóri á Móbergi.

Þetta er flott framtak og til fyrirmyndar hjá ykkur.

„Alveg, við erum rosalega stolt af starfsmönnunum og hinum stjórunum frá Fossheimum og Ljósheimum, þannig að við gerum þetta i sameiningu og reynum að gera þetta saman,“ bætir Ásta við.

Ásta Tryggvadóttir, deildarstjóri á Móbergi og Elvis Iceland eins og hann kallar sig.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Og heimilisfólkið á Móbergi var mjög ánægt með skemmtunina með Presley.

„Hann er fínn Presley, hann stóð sig vel hvort sem hann heitir Elvis eða Presley,“ segir Guðlaugur Rúnar Guðmundsson.

Var alltaf gaman af Elvis í gamla daga?

„Já, alltaf gaman“.

Og þú fórst út á dansgólfið og dansaðir?

„Já, já, maður verður að gera það, þetta var bara fínt og skemmtilegt,“ segir Helga Jónsdóttir.

Starfsfólk og heimilisfólk fór á dansgólfið með Presley.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×