Enski boltinn

„Hvort sem hlutirnir ganga vel eða illa, þá er það á mína á­byrgð“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, sést hér niðurlútur á hliðarlínunni í leiknum á móti Nottingham Forest í dag.
Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, sést hér niðurlútur á hliðarlínunni í leiknum á móti Nottingham Forest í dag. Getty/ Liverpool FC

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur horft upp á sína menn í Liverpool tapa sex af síðustu sjö leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og eftir 3-0 skell á heimavelli á móti Nottingham Forest í dag er liðið dottið niður í neðri hluta töflunnar.

„Önnur mikil vonbrigði. Við byrjuðum nokkuð vel fyrsta hálftímann. Við fengum á okkur mark, 1-0, og gátum ekki spilað eins og við gerðum fyrsta hálftímann,“ sagði Arne Slot en það má sjá viðtalið hér fyrir neðan.

Klippa: Viðtal við Arne Slot eftir tap á móti Nott. For

Liverpool bað um rangstöðu en hún var ekki dæmd á leikmanninn sem stóð fyrir framan Alisson í markinu.

„Ég veit það ekki. Ég heyrði að þetta hafi ekki verið rangstaða, þannig að ef það var ekki rangstaða er engu við það að bæta. Við sköpuðum færi og biðum eftir að skora mark. Fasta leikatriðið breytti öllu og þeir skoruðu tvö,“ sagði Slot.

„Hvort sem hlutirnir ganga vel eða illa, þá er það á mína ábyrgð. Okkur tókst ekki að skapa nóg. Ég reyndi að breyta nokkrum atriðum en það gekk ekki upp. Okkur tókst ekki að skora mark. Maður veit aldrei á þessum velli, ef maður skorar mark geta hlutirnir fallið með manni,“ sagði Slot.

Hann var spurður út í það að fá á sig mark snemma í seinni hálfleik: „Auðvitað var það slæmt. Það var þegar erfitt að vera 1-0 undir gegn liði sem ver allt,“ sagði Slot.

„Þetta er svona einfalt. Eftir nokkra daga þurfum við að spila aftur í Meistaradeildinni og svo þrjá leiki í ensku úrvalsdeildinni á stuttum tíma. Halda höfði og leggja ótrúlega hart að okkur. Við reynum það á hverjum einasta degi,“ sagði Slot.

„Það hjálpar alltaf að hafa reynslumikla og góða leikmenn. Það gengur bara ekki upp í augnablikinu,“ sagði Slot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×