Skoðun

Gleymdu ekki þínum minnsta bróður.

Sigurður Fossdal skrifar

Kaffistofa Samhjálpar var opnuð árið 1981 en hafði þá bækistöðvar við Hverfisgötu í Reykjavík. Seinna fluttist Kaffistofan í Borgartúnið þar sem hún hefur verið um árabil eða til október 2025. Tímabundið fékk Kaffistofa Samhjálpar inn í Hátúni 2, á neðri hæð Fíladelfíu kirkju, en til stóð að Kaffistofan myndi flytja á Grensásveg 46 í desember 2025, Þar hafa þó framkvæmdir verið stöðvaðar því það lítur út fyrir samkvæmt viðtölum við formann Húsfélags á svæðinu að Kaffistofa Samhjálpar sé ekki velkomin í þeirra nærumhverfi.

„Það er búið að samþykkja að senda þetta í grenndarkynningu og við erum að fara að funda með borginni í næstu viku. En við höfum stöðvað allar framkvæmdir á meðan þetta er í svona óvissu“ segir Guðrún Ágústa Framkvæmdastjóri Samhjálpar í viðtali sem Vísir tók við hana.

Það er sífelld aðsókn á Kaffistofu Samhjálpar og margir sem þurfa á hjálp að halda. Aðsóknin hefur aukist og þörfin sjaldan verið meiri.

Til þeirra leitar umkomulaust og fátækt fólk, ýmist vegna andlegra eða líkamlegra veikinda eða félagslegrar einangrunar. Öll eiga þau það sameiginlegt að búa við fjárhagslegar áskoranir ásamt því sem margir upplifa félagslega útskúfun.

Og svo virðist sem félagslega útskúfunin haldi áfram. „Þetta fólk“ er ekki velkomið á Grensásveg. Okkar minnstu bræður og systur, heimilislausir, fólk með geðrænar áskoranir, einstaklingar með áfengis- og vímuefnavanda. Jaðarsettasti hópur okkar samfélags les nú fréttir þar sem íbúar á og við Grensásveg vill ekki sjá þau, samkvæmt umræddum formanni húsfélags á svæðinu.

Einn af þeirra fáu möguleikum að fá í sig hita, næringu og samfélag er Kaffistofa Samhjálpar.

Samkvæmt Formanni húsfélagsins sem kom fram í viðtölum á DV og Vísi þá vill enginn búa þar sem Samhjálp er nálægt.

Skilgreining á fordómum (prejudice):

Fordómar eru fordæmandi og yfirleitt neikvæð viðhorf sem einstaklingur eða hópur ber gagnvart öðrum einstaklingi eða hópi, byggð á fyrirframgefnum hugmyndum fremur en raunverulegri þekkingu, reynslu eða rökum. Fordómar fela oft í sér alhæfingar, staðalmyndir, og matskenndar tilfinningar sem geta orðið grundvöllur að mismunun.

Í fræðilegum skilningi samanstanda fordómar af þremur þáttum:

  1. Hugrænum þætti (cognitive) – staðalmyndir, alhæfingar eða trú á eiginleika hóps án sannana.
  2. Tilfinningalegum þætti (affective) – jákvæðum eða neikvæðum tilfinningum gagnvart hópnum.
  3. Hegðunartengdum þætti (behavioral) – tilhneigingu til að hegða sér á tiltekinn hátt gagnvart viðkomandi hópi (t.d. forðun, fjandskapur), þó að það sé formlega skilgreint sem „mismunun“ þegar það verður að hegðun.

Fordómar eru fyrirfram mótuð, tilfinningaleg og oft neikvæð viðhorf gagnvart einstaklingum eingöngu á grundvelli þess að þeir tilheyri ákveðnum félagslegum hópi, óháð raunverulegum eiginleikum þeirra eða athöfnum.

– samandregið úr ritrýndum skilgreiningum í félagssálfræði (t.d. Allport, 1954; Dovidio, Hewstone, Glick & Esses, 2010).

Framkvæmdastjóri Samhjálpar lýsir þakklæti fyrir stuðning eftir að henni bárust skilaboð um að í Hverfisgrúppu 108 þar sem umræðan fór fram hafi meirihluti ummæla verið jákvæð í garð flutninga Kaffistofu Samhjálpar á Grensásveg.

Það verður að teljast gott að meirihluti þeirra sem búa í nágrenninu vilji að okkar samfélag eigi stað sem getur haldið áfram að gefa tvö-þrjú hundruð máltíðir á dag til þeirra sem á því þurfa að halda.

Persónuleg skoðun mín er að um mannréttindamál sé að ræða og óska ég þess einarðlega að við getum búið í samfélagi sem vill halda utan um þá sem minna mega sín

Ég læt orð Guðrúnar Ágústu – Framkvæmdastjóra Samhjálpar úr viðtali við hana á Vísi verða þau síðustu:

„Þetta er ekki bara heimilislaust fólk. Ef þú telur þig þurfa á þjónustu okkar að halda, þá ertu velkomin. Það er fólk sem er í vinnu, sem á ekki fyrir mat, fólk sem leigir húsnæði eða á ekki fyrir mat og það kemur til okkar. Það vill enginn vera í þeim aðstæðum að þurfa að leita ásjár okkar og eiga ekki fyrir mat. Það er ekki eins og fólk hafi valið sér þetta hlutskipti.“

Höfundur er stuðningsmaður Samhjálpar.




Skoðun

Sjá meira


×