Neytendur

Fiskikóngurinn uggandi yfir fordæmalausum skorti á tindaskötu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Fiskikóngurinn segist aldrei hafa séð slíkan skort á tindabikkju áður.
Fiskikóngurinn segist aldrei hafa séð slíkan skort á tindabikkju áður.

Fisksalinn Kristján Berg Ásgeirsson kveðst uggandi yfir miklum skorti á tindaskötu fyrir þessi jól. Hann segir Fiskikónginn ekki einu sinni ná að kaupa helming af skötutegundinni sem búðin kaupir venjulega inn fyrir hver jól. Hann hafi fengið þau svör að svo lítið fáist fyrir að veiða tindabikkjuna að henni sé frekar kastað aftur í sjóinn.

„Það er til eitthvað af tindabikkju hjá okkur núna en við fengum ekki helming upp í okkar þörf fyrir okkar fiskbúð og ég er búinn að heyra í öðrum fiskbúðum og það er sama sagan þar,“ segir Kristján í samtali við Vísi. Hann tekur fram að ekki verði um allsherjar skötuskort að ræða, aðrar tegundir verði í boði.

„Tindabikkjan er þessi vestfirska skata, þessi vestfirska sem er sterkust og það er skortur á henni. Það er ekki skortur á hinni. Þannig þetta er ekki sölutrikk hjá mér, þetta er einfaldlega eitthvað sem veldur mér miklum áhyggjum.“

Tindabikkjan sé ómissandi hluti af jólahaldi margra, sérstaklega Vestfirðinga og þyki af mörgum besta skatan. Kristján segir son sinn sjá um dagsdaglegan rekstur fiskbúðarinnar og viðurkennir að hann hafi verið steinhissa þegar hann hafi sagt honum frá skortinum.

„Hann segir mér að það sé bara einfaldlega engin tindabikkja á markaðnum. Ég hringi þá bara í okkar birgja og spyr: Hvar er tindabikkjan?“ segir Kristján sem segist hafa fengið þau svör að sjómenn fái það lítið fyrir að veiða skötuna að þeir landi henni ekki. „Hvað gera þeir þá? Henda henni væntanlega í sjóinn og það er brottkast. Það er gjörsamlega galið, ég var alinn upp við að henda engum mat. Fersk tindabikkja er afbragðsmatur og selst til dæmis vel í Frakklandi og þykir herramannsmatur.“

Hann segir skötusöluna í aðdraganda jóla hefjast af alvöru 15. desember. Fólk kaupi ekki skötu og geymi inn í ísskáp þannig eftirspurnin verði mest í aðdraganda Þorláksmessu og segir Kristján áhugavert að sjá hve mikið verði eftir af tindabikkju á Þorláksmessu.

Kristján segir dæmið vekja upp spurningar um stöðu fiskvinnslu hér á landi. „Þeim fer fækkandi, það er engin nýliðun og þetta er að fæarst á hendur færri og færri aðila. Er þetta það sem við viljum? Ef sjómaðurinn hendir þessu núna, hverju hendir hann þá á næsta ári? Erum við að fara að hætta þessari hefð, hætta að borða tindabikkju? Þetta eru fornaldarhefðir okkar, sem við reynum að halda í. Það var alltaf siginn fiskur, þurrkaður saltfiskur, hnoðmör og saltað selspik en er núna er þetta orðið Subway, pizzur, hamborgarar og djúpsteiktur kjúklingur sem er að koma í staðinn. Ég er bara lítill fisksali að rífa kjaft en mér finnst allt í lagi að vekja athygli á stöðunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×