Fótbolti

Snýr aftur eftir 26 mánuði

Valur Páll Eiríksson skrifar
Paul Pogba snýr aftur á fótboltavöllinn á morgun.
Paul Pogba snýr aftur á fótboltavöllinn á morgun. Getty/Andrea Staccioli

Paul Pogba snýr aftur á fótboltavöllinn eftir 26 mánuði utan hans er lið hans Mónakó mætir Rennes í frönsku úrvalsdeildinni á morgun.

Pogba spilaði 28 mínútur fyrir Juventus í 2-0 sigri á Empoli þann 3. september 2023, þá þrítugur að aldri. Nú 32 ára gamall mun hann snúa aftur á völlinn annað kvöld.

Pogba var dæmdur í 18 mánaða bann fyrir brot á lyfjareglum eftir þann leik og hefur endurkomu hans verið beðið um hríð. Juventus losaði hann undan samningi en Mónakó tók sénsinn á leikmanninum í sumar.

Hann átti að snúa aftur á völlinn þann 18. október er liðið mætti Angers en vöðvameiðsli komu í veg fyrir það. Þá átti hann að spila við París FC í byrjun þessa mánaðar en meiddist þá á ökkla tveimur dögum fyrir þann leik.

Nú hefur Pogba haft landsleikjahléið til að jafna sig af þeim meiðslum og allt stefnir í að loks komi að því að hann spili aftur fótboltaleik á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×