Innlent

Nær allir sam­mála um af­sögn ríkislög­reglu­stjóra

Kjartan Kjartansson skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir sagði af sér sem ríkislögreglustjóri fyrr í mánuðinum. Svo virðist sem að nær öllum hafi líkað það.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir sagði af sér sem ríkislögreglustjóri fyrr í mánuðinum. Svo virðist sem að nær öllum hafi líkað það. Vísir

Svarendur í skoðanakönnun sem Maskína gerði voru svo gott sem á einu máli um að það hefði verið rétt ákvörðun hjá Sigríði Björk Guðjónsdóttur að segja af sér sem ríkislögreglustjóri. Sú afstaða er óháð kyni, aldri, búsetu, menntun, tekjum eða stjórnmálaskoðunum svarenda.

Sigríður Björk baðst lausnar sem ríkislögreglustjóri 10. nóvember í kjölfar frétta um 160 milljóna króna viðskipti embættisins við ráðgjafarfyrirtækið Intra.

Hátt í 98 prósentum svarenda í könnun Maskína fannst það rétt ákvörðun hjá Sigríðir Björk að segja af sér. Aðeins 2,5 prósent sögðu ákvörðunina ranga, alls tuttugu manns af 825 sem tóku afstöðu.

Lítill sem enginn munur var á afstöðu fólks til afsagnarinnar eftir kyni, aldri, búsetu, menntun, heimilistekjum eða hvaða flokki fólk kysi.

Eina frávikið sem orð var á hafandi var afstaða þeirra sem sögðust kjósa Framsóknarflokkinn. Það var eini hópurinn í könnuninni þar sem innan við níutíu prósent studdu afsögnina, 86,8 prósent. 

Þá var hlutfall þeirra sem sögðu ákvörðunina beinlínis ranga langhæst á meðal framsóknarfólks, 13,2 prósent. Í engum öðrum hópi fór það hlutfall mikið yfir fimm prósent.


Tengdar fréttir

Farsæll ferill eða í meira lagi umdeildur?

Sigríður Björk Guðjónsdóttir hefur um árabil gegnt lykilembættum innan lögreglunnar á Íslandi, en hefur nú sagt af sér embætti ríkislögreglustjóra í kjölfar umdeildra mála. Í tilkynningu á vef ríkislögreglustjóra er tíðrætt um farsælan feril hennar í starfi en þó er óhætt að segja að gustað hafi um Sigríði Björk þar sem mál sem tengjast henni fjölskylduböndum hafa vakið hvað mesta athygli.

Heldur fullum launum

Sigríður Björk Guðjónsdóttir verður á fullum launum ríkislögreglustjóra í nýju starfi sem sérfræðingur hjá dómsmálaráðuneytinu. Dómsmálaráðherra segir það betri nýtingu á opinberum fjármunum en ef Sigríður Björk sæti heima á launum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×