Jól

Betri en hefð­bundnar sörur

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Guðrún Ýr heldur úti uppskriftasíðunni Döðlur og smjör.
Guðrún Ýr heldur úti uppskriftasíðunni Döðlur og smjör.

Jólaandinn færist smám saman yfir landsmenn, fagurskreytt hús lýsa upp göturnar og jólalög óma víða. Margir eru þegar byrjaðir að baka smákökur fyrir hátíðirnar og matgæðingurinn Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir, sem heldur úti uppskriftasíðunni Döðlur og smjör, er þar á meðal.

Guðrún deilir hér uppskrift að lakkríssörum sem hún segir vera jafnvel betri en hefðbundnar sörur.

„Á síðasta ári bakaði ég eingöngu lakkríssörur og get ekki sagt að ég hafi saknað hinnar klassísku útgáfu, enda er ég forfallinn lakkrísfíkill! Svo ef þið eruð farin að huga að því hvað þið ætlið að baka fyrir jólin, mæli ég eindregið með þessum,“ segir hún.


Lakkríssörur (Ca. 40 kökur)

Makkarónur

Hráefni:

  • 3 eggjahvítur
  • 200 g möndlumjöl
  • 200 g flórsykur

Aðferð:

  1. Stillið ofninn á 180°C.
  2. Þeytið eggjahvíturnar stífar.
  3. Sigtið saman möndlumjöl og flórsykur í skál.
  4. Blandið þurrefnunum varlega saman við eggjahvíturnar.
  5. Setjið blönduna í sprautupoka með hringlaga stút og sprautið litlum dropum á bökunarpappír. Guðrún mælir með því að miða stærð á við 10 króna pening.
  6. Bakið í 10–15 mínútur, þar til skeljarnar verða ljósbrúnar.

Lakkríssmjörkrem

Hráefni:

  • 100 g „gammeldags lakrids“
  • 1½ dl vatn
  • 6 eggjarauður
  • 300 g smjör, kalt og skorið í teninga
  • 200 g mjólkursúkkulaði (til hjúpunar)

Aðferð:

  1. Saxið lakkrísinn og setjið í pott með vatni.
  2. Hitið á meðalhita og látið malla í ca. 10 mínútur, þar til myndast hefur lakkríssýróp.
  3. Þeytið eggjarauðurnar þar til þær verða kremgular og þykkar.
  4. Hellið lakkríssýrópinu í mjórri bunu saman við eggjarauðurnar á meðan hrærivél er í gangi.
  5. Mikilvægt er að hella ekki of hratt, annars geta rauðurnar soðnað.
  6. Þeytið áfram í 4–5 mínútur, þar til skálin verður köld eða volg.
  7. Bætið smjörteningunum út í – einum í einu – og hrærið þar til kremið verður slétt og létt.

Samsetning

  1. Setjið kremið í sprautupoka og kælið aðeins ef það er mjög mjúkt.
  2. Sprautið kremi á helming skeljanna og leggið hinar ofan á.
  3. Einnig má dreifa kreminu út að köntum með smjörhníf.
  4. Kælið kökurnar vel.
  5. Bræðið mjólkursúkkulaði yfir vatnsbaði.
  6. Dýfið kremhliðinni ofan í súkkulaðið og leggið kökurnar á smjörpappír.
  7. Geymið í frysti og takið út stuttu áður en borið er fram.







×