Skoðun

Vaxtaokrið

Jónas Yngvi Ásgrímsson skrifar

Margt hefur verið rætt og ritað um fasteignamarkaðinn á Íslandi og sitt sýnist hverjum. Það er óumdeilt að ungt fólk á erfitt með að kaupa sína fyrstu fasteign en fasteignaverð hefur undanfarinn áratug hækkað meira en góðu hófi gegnir. Það ásamt okurvöxtum banka eru þær tvær meginástæður fyrir erfiðleikum unga fólksins og í raun allra.

Þegar heimasíður bankanna eru skoðaðar sést hvað vaxtakjörin hefta fasteignamarkaðinn. Á heimasíðu Landsbankans (17.11.2025) sést að íbúðakaupandi sem ætlar að kaupa 70 milljón króna íbúð greiðir sjálfur 14 milljónir og fær 80% lánað eða 56 milljónir, þarf að greiða mánaðarlega kr. 412.804 af láni með 8,55% föstum vöxtum í 60 mánuði. Í heildina kemur viðkomandi til með að greiða kr. 198.145.908. Ekki batnar það þegar ákveðið er að taka lán með 10% breytilegum vöxtum en þá verður mánaðarleg greiðsla kr. 475.662 og í lok lánstíma er búið að greiða kr. 228.317.606.

Til að bæta gráu ofan á svart þarf viðkomandi að standast greiðslumat og Seðlabankinn segir að hámark mánaðarlegrar greiðslubyrðar megi vera 35% af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum. Til að geta greitt 412.804 í afborgun og vexti þurfa ráðstöfunartekjur að vera 1.179.440 en þó er heimild veitt til þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign að hámark greiðslubyrðar má vera 40% þannig að ráðstöfunartekjur mega vera 1.032.010. Ráðstöfunartekjur eru laun að frádregnum sköttum og því þurfa þeir sem ætla að kaupa 70 milljón króna íbúð að vera með tekjur uppá 1,8 milljónir á mánuði en ef sambýlisfók ætlar að kaupa sömu íbúð þarf að vera með mánaðartekjur uppá 800 þús. hvort um sig.

Vaxtastigið sjálft er mikill þröskuldur. 8,55% ársvextir af 56 milljóna láni eru 4.760.000, og 10% vextir eru 5,6 milljónir. Nú er það samt þannig að vextir lækka eftir því sem meira er greitt af láninu þannig að greiðslubyrðin lækkar eftir því sem á líður. En ef við skoðum tölurnar hér að ofan þá sést að það kostar 142.145.908 kr. að endurgreiða 56 milljóna lánið með 8,55% vöxtunum og 172.317.606 að endurgreiða 10% vaxtalánið.

En hver er lausnin. Jú í raun er hún einföld. Landsbankinn sem ríkisbanki á að taka sig til og gera sérstaka lánalínu sem er fyrir þá sem eru að kaupa sér íbúð. Hægt er að setja alls konar skilmála á þessa línu eins og kaupandi verði að hafa lögheimili í viðkomandi íbúð og einungis er lánað til einnar íbúðar í einu í þessu kerfi. Þarna mætti hugsa sér að vextir yrðu á pari við vexti þeirra landa sem við miðum okkur gjarna við. Þannig væru t.d. 3,5% vextir af lánum í þessu kerfi. Ársvextir af 56 milljóna láninu sem við notuðum hér að ofan yrðu þannig 1.960.000 eða um þrem milljónum lægri en eru í dag og fyrsta afborgun yrði um 300.000 krónur. Líklega myndi þetta tákna minni hagnað bankanna og um leið lægri arðgreiðslum til eigandanna en að mínu mati yrði svona aðgerð til þess að gera fleiri fjölskyldum mögulegt að koma sér þaki yfir höfuðið. Nýjasta lækkun stýrivaxta er af hinu góða en betur má ef duga skal.

Höfundur er varaþingmaður Flokks fólksins og stjórnarmaður í VR.




Skoðun

Skoðun

Þið kannist við jóla­köttinn...

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ytra mat á ís

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jenný Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×