Sport

Nú verður hægt að „drekka“ ís­lensku dæturnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku CrossFit-goðsagnirnar og vinkonurnar Katrín Tanja Davíðsdóttir og Anníe Mist Þórisdóttir eru að hefja nýtt viðskiptaævintýri.
Íslensku CrossFit-goðsagnirnar og vinkonurnar Katrín Tanja Davíðsdóttir og Anníe Mist Þórisdóttir eru að hefja nýtt viðskiptaævintýri. @anniethorisdottir, @drinkdottir

Íslensku CrossFit-goðsagnirnar Katrín Tanja Davíðsdóttir og Anníe Mist Þórisdóttir eru að hefja nýtt viðskiptaævintýri í næsta mánuði.

Barneignirnar trufla ekki okkar konur í leit að nýjum viðskiptatækifærum en Katrín Tanja er nýbúin að eignast sitt fyrsta barn og Anníe Mist á von á sínu þriðja barni í febrúar.

Barbell Spin fjallar um íslensku CrossFit-konurnar og nýja fyrirtækið þeirra.

Katrín Tanja og Anníe Mist eru nú að fara að setja á markað nýjan íslenskan sjávarkollagendrykk sem heitir dóttir. Drykkurinn var búinn til og þróaður af Jen Milks og Kelly Meredith og hefur verið í þróun um nokkurt skeið.

Nú verður hægt að „drekka“ íslensku dæturnar og það með þrenns konar bragði.

Síðan þá hefur @drinkdottir birt sína fyrstu Instagram-færslu, þar sem drykkurinn var kynntur og áhugasamir hvattir til að fylgja síðunni til að fá frekari upplýsingar þegar nær dregur útgáfu.

Vefsíða þeirra, drinkdottir.com, er með forsíðu sem telur niður til útgáfu þann 9. desember 2025. Einnig er hægt að skrá sig á póstlista þeirra til að fá snemmbúinn aðgang að dóttur.

Við útgáfu verður dóttir fáanleg í þremur bragðtegundum: Jarðarberja- og sítrónu, blönduðum berjum og mandarínu. Hver dós mun innihalda 105 milligrömm af koffíni ásamt íslensku sjávarkollageni og verður án sykurs eða gervibragðefna.

Dóttir-drykkurinn verður framleiddur í Colorado-fylki í Bandaríkjunum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Katrín Tanja og Anníe Mist leggja nafn sitt við fyrirtæki. Árið 2021 var Dóttir Audio sett á markað. Ári síðar hætti móðurfélag vörumerkisins, STRAX, starfsemi.

Í fyrra settu þær svo á markað Dóttir Skin, íslenska sólarvörn sem var svitaþolin og ilmefnalaus. Dóttir Skin er enn í rekstri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×