Innlent

„Þessi mál hafa verið ó­lestri í allt­of, allt­of langan tíma“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra ætlar að endurskoða meðferðarstarf fyrir börn sem allra fyrst. Málaflokkurinn sé búinn að vera í ólestri.
Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra ætlar að endurskoða meðferðarstarf fyrir börn sem allra fyrst. Málaflokkurinn sé búinn að vera í ólestri. Vísir/Sara

Mennta- og barnamálaráðherra segir meðferðarúrræði fyrir börn og ungmenni hafa verið í ólestri alltof lengi. Hann leggur áherslu á að klára endurskoðun á slíkri starfsemi sem allra fyrst og hefur heimsótt nokkur meðferðarheimili nú þegar. Heilbrigðisráðuneytið er haft með í ráðum.

Fyrrverandi starfsmenn og skjólstæðingur Bjargeyjar, meðferðarheimilis fyrir stelpur og kvár á aldrinum 13- 18 ára hafa nýlega stigið fram og lýst ófaglegum vinnubrögðum og losarabrag á heimilinu.

Forstjóri Barna- og fjölskyldustofu sagði heimilið nýtt og eðlilegt að enn væri verið að móta starfið en heimilið var opnað 2022. 

Umboðsmaður barna telur rétt að endurskoða starfsemi slíkra heimila vegna alvarlegra mála sem hafa komið upp síðustu misseri. Neyslan sé að harðna.

Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra segist vel meðvitaður um vandann og umræðuna síðustu misseri í málaflokknum.

„Þessi mál hafa verið ólestri í alltof, alltof langan tíma, við erum virkilega að taka á þessum málum núna og skoða málin heildstætt og ég tel að við séum komin vel á veg með það,“ segir hann.

Hann hafi sjálfur farið eða sé á leið í vettvangsferðir á meðferðarheimili fyrir börn. Meðal heimila sé Gunnarsholt á Rangárvöllum sem býður upp á langtímameðferð fyrir drengi sem glíma við fjölþættan vanda og /eða vímuefnaneyslu.

„Við erum t.d. að skoða alla ferla í þessum málum. Ég var í Bjargey fyrir stuttu að skoða og ég er að fara í Gunnarsholt á morgun. Við erum að fara að kortleggja nákvæma stöðu í málaflokknum,“ segir hann.

Heilbrigðisráðuneytið sé komið í málið.

„Við erum í samtali við heilbrigðisráðuneytið vegna þess að það er alltaf spurning hvort málaflokkurinn eigi heima hjá okkur eða þar. Við ætlum þess vegna að vinna málið saman. Það er langbest og farsælast,“ segir hann að lokum.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×