Handbolti

Lovísa með níu í góðum sigri

Valur Páll Eiríksson skrifar
Lovísa Thompson var markahæst á vellinum í kvöld.
Lovísa Thompson var markahæst á vellinum í kvöld. Vísir/Anton Brink

Lovísa Thompson fór fyrir liði Vals í öruggum sigri liðsins á Haukum að Ásvöllum í Olís-deild kvenna í handbolta í kvöld.

Haukar fóru betur af stað í kvöld og náðu 4-1 forskoti snemma en Valskonur unnu það fljótt upp og fátt fékk liðin aðskilin í fyrri hálfleik. Munurinn var eitt mark í hálfleik, 13-12 fyrir Val.

Valskonur voru hins vegar töluvert sterkari eftir hlé og juku jafnt og þétt við forskot sitt. Mest náði Valur níu marka forystu en sigurinn vannst að endingu með sjö mörkum, 31-24.

Valur er eftir sigurinn með 14 stig á toppi deildarinnar eftir átta leiki, en ÍBV og ÍR sem eru fjórum stigum á eftir eiga leik inni. Haukar eru með sjö stig í fimmta sæti.

Lovísa Thompson var markahæst á vellinum með níu mörk fyrir Val en Thea Imani Sturludóttir og Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoruðu sex hvor. Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði sjö mörk fyrir Haukakonur.

Hafdís Renötudóttir var þá öflug í marki Vals með 17 varin skot og markvörslu upp á 41,5 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×