Fótbolti

Stuðnings­menn Bröndby enn á ný í vand­ræðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn danska fótboltafélagsins Bröndby hafa verið að koma sér og félaginu í vandræði á þessu ári.
Stuðningsmenn danska fótboltafélagsins Bröndby hafa verið að koma sér og félaginu í vandræði á þessu ári. Getty/Ian MacNicol

Ein af stóru fótboltasögum sumarsins var hegðun stuðningsmanna Bröndby á heimavelli hamingjunnar í Víkinni þegar lið þeirra steinlá í Evrópuleik á móti Víkingum. Þetta var þó ekki í síðasta skiptið sem stuðningsmenn Bröndby bjuggu til vandræða í útileik á þessu tímabili.

Danska knattspyrnusambandið hefur nú ákveðið að refsa Brönby fyrir ofsafengin mótmæli stuðningsmanna félagsins í tengslum við leik í dönsku úrvalsdeildinni gegn OB fyrir viku síðan.

Stuðningsmennirnir köstuðu tennisboltum og súkkulaðipeningum inn á völlinn og stöðvuðu leikinn gegn OB í nokkrar mínútur. Danska sambandið sagði frá refsingunni í fréttatilkynningu.

Í greinargerð dómara leiksins kemur fram að það gekk mikið á.

Þegar liðin gengu inn á völlinn hafi verið kveikt í miklum fjölda neyðarblysa og reykvélabomba í stúku gestaliðsins. Að sögn dómarans var öll stúkan hulin reyk og því var erfitt að telja nákvæman fjölda flugelda.

Dómarinn hefur einnig greint frá því að í tengslum við innkomu liðanna hafi fimmtán flugeldum verið skotið inn á völlinn. Þá er greint frá því að í leiknum hafi verið kveikt í alls 24 neyðarblysum og að eftir leikslok hafi aftur verið kveikt í miklum fjölda neyðarblysa í stúku gestaliðsins. Stúkan var aftur hulin reyk og því var enn erfitt að telja nákvæman fjölda flugelda.

Dómarinn hefur einnig greint frá því að á 46. mínútu hafi leikurinn verið stöðvaður af öryggisástæðum leikmanna, þar sem miklum fjölda tennisbolta og súkkulaðipeninga var kastað inn á völlinn úr stúku gestaliðsins.

Þulur vallarins fylgdi í því sambandi verklagsreglum og eftir fyrirmælum frá fjórða dómara var tilkynnt í hátalarakerfinu að óheimilt væri að kasta hlutum inn á völlinn. Leikhléð stóð í sjö mínútur og heildarleikhléð var því ellefu mínútur.

Að lokum hefur dómarinn greint frá því að í lok leiksins hafi borði verið sýndur í stúku gestaliðsins með textanum „Fuck DBU”.

Refsingin er eftirtalin:

Bröndby verður að loka allri stuðningsmannastúkunni sinni í næsta heimaleik gegn FC Nordsjælland.

Bröndby verður að loka efri hluta stuðningsmannastúkunnar í heimaleiknum þar á eftir gegn FC Fredericia.

Að lokum þarf Bröndby að greiða hundrað þúsund danskar krónur í sekt sem eru næstum því þrettán milljónir í íslenskum krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×