Skoðun

Hverjar eru hinar raun­veru­legu af­ætur?

Karl Héðinn Kristjánsson skrifar

Í Grafarvogi býr ungt par með tvö lítil börn. Þau vinna bæði fulla vinnu, greiða skatta og gera allt „rétt“ samkvæmt bókinni. Í fimm ár hafa þau reynt að safna fyrir útborgun í íbúð. En á meðan leiguverð hefur hækkað langt umfram laun og vextir étið upp allt umframfé, færist draumurinn um öruggt heimili alltaf lengra í burtu. Þau horfa á ávöxtinn af erfiði sínu renna beint í vasa bankanna og leigufélaganna sem tilkynna á sama tíma um metgróða. Þau eru að gefast upp.

Þetta er ekki tilviljun. Leikreglurnar eru skrifaðar af hinum ríku, fyrir hina ríku. Markmiðið er einfalt: Að þín vinna skapi auð þeirra.

Í opinberri umræðu á Íslandi er vinnandi fólki kerfisbundið talin trú um að það eigi að líta niður á náungann. Okkur er sagt að reiðast bótaþeganum, fyrirlíta innflytjandann og óttast flóttamanninn. Þessum hópum er stillt upp sem „afætum“ á samfélaginu. Þetta er markviss og hættuleg blekking, hönnuð til að beina athygli okkar frá hinum raunverulegu afætum; þeim sem raunverulega sölsa undir sig verðmætin sem vinnandi fólk skapar.

Á meðan við erum hvött til að skammast út í nágranna okkar sem þiggur örorkubætur, birtast fréttir sem afhjúpa raunverulegt eðli kerfisins. Fyrirsagnirnar segja sína sögu: „Meira en 70 milljarða hagnaður bankanna“. Já, þið lásuð rétt. Á fyrstu níu mánuðum ársins söfnuðu þrír stærstu viðskiptabankarnir – Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki – samanlagt yfir 73 milljörðum króna í hreinan hagnað. Landsbankinn hagnaðist um 29,5 milljarða, Arion banki um 24,4 milljarða og Íslandsbanki um 19,3 milljarða. Samt er okkur sagt að þau kljáist við „erfitt rekstrarumhverfi“ sem réttlæti hærri þjónustugjöld og komi í veg fyrir vaxtalækkanir. Þetta er sama tuggan og hjá matvörurisunum. Hagar skila milljörðum í hagnaði en segjast samt tilneydd til að hækka matvælaverð. Græðgi þeirra er okkar tap.

Þetta eru ekki peningar sem urðu til úr lausu lofti. Það sem er kallaður hagnaður bankanna er tap þjóðarinnar. Þetta er hagnaður sem er sogaður út úr íslensku efnahagslífi með okurvöxtum, fáránlegum þjónustugjöldum og fjármálabraski. Á sama tíma og venjulegar fjölskyldur berjast við að greiða af verðtryggðum lánum fagna bankastjórar „góðri afkomu“.

Fyrir hvern er þetta hagkerfi eiginlega?

Lygin um innflytjendur og bótaþega

En þegar endar ná ekki saman á stórum hluta heimila landsins og grunnþjónustan gefur sig, hverjum er þá kennt um? Innflytjendum. Staðreyndirnar segja aðra sögu. Atvinnuþátttaka innflytjenda á Íslandi er um 89%, sem er hærra hlutfall en hjá innfæddum, sem er um 84%. Innflytjendur eru nú um fjórðungur vinnuafls á Íslandi og gegna lykilhlutverki í undirstöðuatvinnugreinum. Þeir greiða skatta og gjöld í samneysluna, en búa sjálfir oft við verri kjör, lægri laun og mun meira óöryggi á húsnæðismarkaði þar sem leiguverð og afborganir rjúka upp úr öllu valdi. Að mála þá upp sem vandamál er ekkert annað en ósvífin tilraun til að etja hópum vinnandi fólks saman.

Sama gildir um bótaþega. Á meðan fjármagnseigendur stinga milljörðum í vasann þreytist þeim ekki að ræða um meint „bótasvindl“ eins og það sé stærsta ógnin við ríkissjóð. Þótt hver einasta króna í bótasvindli sé of mikið blikna þær upphæðir í samanburði við þann gríðarlega auð sem hinir ríku sanka að sér.

Skattaundanskot og húsnæðismarkaður afæta – Glæpir hinna ríku

Ef við viljum tala um raunverulegt svindl, tölum þá um skattaundanskot auðmanna, sem metið hefur verið á tugi milljarða árlega. Eða tölum um húsnæðismarkaðinn. Sjálfur faðir kapítalismans, Adam Smith, lýsti þessu arðráni fullkomlega fyrir nærri 250 árum þegar hann skrifaði:

„Þegar allt land í ríki er komið í einkaeigu, elska landeigendur... að uppskera þar sem þeir sáðu aldrei.“

Sú greining hefur fáu sinnum átt betur við en í dag. Á síðustu tólf mánuðum hefur vísitala leiguverðs hækkað um 11,5%, á meðan verðbólgan mældist 4,8%. Leiguverð hefur því hækkað meira en tvöfalt á við almennt verðlag. Þetta er bein afleiðing markaðar sem þjónar hagsmunum fárra leigufélaga og fjárfesta á beinan kostnað heimila í landinu.

Hættum að sparka niður á við. Reiði okkar á að beinast upp á við.

Flóttamaðurinn ræður ekki vöxtunum.

Öryrkinn stillir ekki leiguverði.

Það eru bankarnir, fjárfestarnir og leigufélögin sem halda vinnandi fólki í fjárhagslegri ánauð.

Raunverulegu afæturnar eru ekki þau sem kerfið svíkur, heldur þau sem það þjónar. Það er fjármagnselítan sem lifir á vinnu annarra.

Látum ekki etja okkur gegn hvert öðru. Barátta okkar er sameiginleg: gegn kerfi sem er hannað til að færa verðmæti frá þeim sem vinna fyrir þeim, til þeirra sem aðhafast ekkert en fleyta rjómann af vinnu annarra.

Við krefjumst þess að vinnandi fólk fái sanngjarnan skerf af þeim gríðarlegu verðmætum sem það skapar. Skattarnir sem við greiðum eiga að tryggja okkur öfluga og gjaldfrjálsa grunnþjónustu, ekki hverfa ofan í vasa verktaka eða einkarekinna sjóða.

Fjármunirnir eru til staðar. Þeir myndu skila sér ef fjármagnseigendur greiddu aðeins jafn háan skatt og venjulegt launafólk.

Þess vegna krefjumst við kerfisbreytinga. Við krefjumst húsnæðis- og fjármálakerfis sem þjónar almenningi fyrst. Kerfis þar sem auðmenn mæta afgangi, ekki öfugt.

Heimildir:

  • Árshlutareikningar Landsbanka, Arion banka og Íslandsbanka fyrir 3. ársfjórðung 2025.
  • Ársuppgjör Haga hf. fyrir rekstrarárið 2023/24.
  • Gögn um vinnumarkað frá Hagstofu Íslands og Vinnumálastofnun (haust 2024).
  • Gögn um leiguverð og vísitölu neysluverðs frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Hagstofu Íslands (desember 2024).
  • Adam Smith (1776), Auðlegð þjóðanna.

Höfundur er ritari framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×