Erlent

Með með­vitund fastur í rústunum en lést á leið á sjúkra­hús

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Björgunaraðgerðir stóðu yfir langt fram á kvöld í gær eftir að miðaldaturninn Torre dei Conti í Rómarborg hrundi að hluta í gærmorgun. 
Björgunaraðgerðir stóðu yfir langt fram á kvöld í gær eftir að miðaldaturninn Torre dei Conti í Rómarborg hrundi að hluta í gærmorgun.  EPA/ANGELO CARCONI

Verkamaður sem varð innlyksa í rústum turnar sem hrundi í Róm, höfuðborg Ítalíu, í gær er látinn. Hinn látni, Octay Stroici, var leystur undan rústunum um klukkan ellefu að staðartíma í gærkvöldi, næstum hálfum sólarhring eftir að hluti turnarins hrundi.

Turninn sem er frá miðöldum, Torre dei Conti, hrundi að hluta í gærmorgun á meðan endurbætur stóðu yfir í turninum, en hann er staðsettur á vinsælum og sögulegum ferðamannastað nærri hringleikahúsinu Collosseum. Fram kom í fréttum af málinu í gær að einn verkamaður hafi slasast lífshættulega þegar turninn hrundi og annar hafi verið fastur. Sá síðarnefndi er nú látinn að sögn heilbrigðisstarfsfólks á Ítalíu að því er fram kemur í umfjöllun BBC.

Björgunarstörf stóðu yfir í margar klukkustundir og var Stroici með meðvitund og í talsambandi við viðbragðsaðila á meðan á aðgerðum stóð. Eiginkona hans var einnig á vettvangi en Stroici var að störfum við endurbætur á turninum þegar slysið varð. Staðan flæktist enn frekar þegar meira hrundi úr turninum á meðan unnið var að því að losa hann úr rústunum.

Það þótti mikið afrek þegar loks tókst að losa hann úr rústunum en Stroici, sem var rúmenskur ríkisborgari, fór í hjartastopp í sjúkrabílnum á leiðinni á sjúkrahús og báru endurlífgunartilraunir ekki árangur. Alls voru þrír einstaklingar leystir undan rústunum, og fyrir utan hinn látna er einn hinna sagður alvarlega slasaður.

Embætti saksóknara í Róm hefur sett af stað rannsókn á atvikinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×