Sport

Verður besta sjöþrautakona Ís­lands villiköttur eða bolabítur?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísold Sævarsdóttir fékk að klæðast keppnisbúningum skólanna þriggja þegar hún heimsótti það. Verður hún villiköttur eða bolabítur?
Ísold Sævarsdóttir fékk að klæðast keppnisbúningum skólanna þriggja þegar hún heimsótti það. Verður hún villiköttur eða bolabítur? @isoldsaevars

Besta sjöþrautarkona Íslands í dag, Ísold Sævarsdóttir, er á leið út til Bandaríkjanna í skóla á næsta vetri en hún getur valið á milli flottra skóla.

Ísold sagði frá því á samfélagsmiðlum sínum að hún hefði heimsótt þrjá stóra skóla sem allir vildu fá hana til sín á skólastyrk.

„Heimsókn til Bandaríkjanna. Á einni viku heimsótti ég þrjá frábæra háskóla í Bandaríkjunum. Nú er bara að velja,“ skrifaði Ísold. Hún var einnig frábær körfuboltakona og hefði örugglega getað komist á skólastyrk sem körfuboltakona líka.

Ísold valdi hins vegar frjálsarnar þar sem hún er landsliðskona og náði besta árangri íslenskra kvenna í sjöþraut á árinu þegar hún náði í 5490 stig á Norðurlandamótinu í fjölþrautum. Það skilaði henni silfri á Norðurlandamótinu.

Skólarnir sem keppast um Ísold eru eftirtaldir:

University of Kentucky í borginni Lexington í Kentucky-fylki í suðaustur-Bandaríkjunum. Skólaliðin þar kalla sig Villikettina eða Kentucky Wildcats.

University of Georgia í borginni Aþenu í Georgíufylki í Suður-Bandaríkjunum. Skólaliðin þar kalla sig bolabíta eða Georgia Bulldogs.

University of Arizona í borginni Tucson í Arizona-fylki í suðavestur-Bandaríkjunum. Skólaliðin þar kalla sig Villikettina eða Arizona Wildcats.

Ísold heimsótti alla skólana og klæddi sig meðal annars í fullan skrúða fyrir myndatöku. Skólarnir eru því allir tilbúnir að tilkynna nýjan nemanda sinn með ferskum myndum þegar Ísold ákveður sig.

Íslandsmet kvenna í sjöþraut er 5878 stig og það setti Helga Margrét Þorsteinsdóttir í júní 2009. Hvort Ísold nái einhvern tímann að ógna því verður að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×