Innlent

Reiði meðal lög­reglu­manna

Eiður Þór Árnason skrifar
Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna.
Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna. Vísir/Arnar

Formaður Landssambands lögreglumanna segir reiði gæta meðal lögreglumanna eftir að fram kom að ríkislögreglustjóri hafi greitt 160 milljónir króna til ráðgjafa yfir fimm ára tímabil. Málið rýri traust almennings til lögreglunnar og hann hefði viljað sjá upphæðina nýtta á betri hátt innan vanfjármagnaðra lögregluembætta.

Fljótlega eftir að greint var frá málinu bárust fréttir af uppsögnum hjá embætti ríkislögreglustjóra og fjárhagsvandræðum þar.

Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, segir að honum hafi verið tjáð að ekki sé verið að segja upp lögreglumönnum heldur fimm eða sex sérfræðingum hjá embætti ríkislögreglustjóra. Heildartalan sé á reiki og þá einkum í ljósi þess að tekin var ákvörðun um að endurráða ekki í vissar stöður. Misjafnt sé hvort þau stöðugildi séu talin með í uppsagnartölunni eða ekki.

„Auðvitað horfir það alltaf illa við manni þegar verið er að segja upp fólki og sérstaklega þegar þessi frétt kemur um þennan ráðgjafa sem var á þessum launum,“ sagði Fjölnir í kvöldfréttum Sýnar.

Áðurnefndur ráðgjafi er Þórunn Óðinsdóttir en hún er eini starfsmaður Intru ráðgjafar. Meðal þess sem fyrirtækið rukkaði tugi þúsunda fyrir var að skreppa í verslanir Jysk, íhuga uppsetningu á píluspjaldi, og sjá um flutninga embættisins frá Skúlagötu yfir á Rauðarárstíg vegna myglu. Þórunn rukkaði tæpar 36.000 krónur fyrir hverja vinnustund.

„Ég hef gert grín að því að ef ég myndi senda rannsóknarlögreglumann í morð um miðja nótt þá myndi það kosta svona 6.500 á tímann. Þannig að okkur finnst þetta slæmur samanburður,“ segir Fjölnir.

Rýri klárlega traust

Honum þykir málið rýra traust til lögreglunnar og það eigi að vera ríkislögreglustjóra fullljóst. Til að mynda hafi lögreglumenn bæði fengið athugasemdir um málið frá fólki sem það á í samskiptum við á vettvangi og sendar í skilaboðum. „Þetta bitnar á öllum lögregluembættum á landinu.“

„Það hefur verið dálítil reiði meðal lögreglumanna um að þetta bitni á þeim. Ég las þetta minnisblað [dómsmála]ráðuneytisins og þar stendur að ríkislögreglustjóraembættið sé illa rekið og skorti eitthvað á stjórnsýslu og hver sé að benda á annan.“ Þessi niðurstaða sé áfall fyrir lögreglumenn.

Erfitt að horfa upp á þetta og vanfjármagnaða lögreglu

Fjölnir viðurkennir að mál ráðgjafans líti illa út í samhengi við reglulega umræðu um vanfjármögnun lögreglunnar.

„Ég er auðvitað í því hlutverki að ég er alltaf að biðja embættið um að um að eyða meiri peningum í löggæslu og ráða fleiri lögreglumenn.“ Þá sé svarið alltaf að það sé ekki hægt vegna niðurskurðar.

Víða um landi skorti menntaða lögreglumenn en á sama tíma hafi fjölgað um 107 starfsmenn hjá embætti ríkislögreglustjóra á árunum 2020 til 2024, samkvæmt skýrslu dómsmálaráðuneytisins.

„Það hefur ekkert embætti stækkað jafn mikið. Það er kannski skýringin á þessum mikla kostnaði.“ Gögnin sýni að þegar ráðuneytið beini því til ríkislögreglustjóra að fara ekki út fyrir fjárheimildir svari það með því að vandamálið sé ekki kostnaðurinn heldur að ráðuneytið hafi ekki látið embættið fá nægt fjármagn.

„Þetta er auðvitað dálítið einkennileg togstreita á milli ráðuneytis og ríkislögreglustjóra að ríkislögreglustjóri segi bara: „Jah, ég er búinn að eyða peningunum, þið bara létuð mig ekki fá nóg.“ Þannig að mönnum fannst þetta skrýtið.“

„Ég hef ekki verið yfir ríkisstofnun og veit ekki alveg hvernig þetta virkar, nema að ég er alltaf að biðja þá um að fjármagna lögregluna og ég hefði viljað sjá 160 milljónir fara í fleiri lögreglumenn,“ bætir Fjölnir við og vísar þar til upphæðarinnar sem greiddar voru fyrir þjónustu Intra ráðgjafar.

Vill ekki gefa upp hvort hann vilji að Sigríður segi af sér

Sigríður Björk ríkislögreglustjóri gaf út í dag að hún hafi ekki íhugað að segja af sér embætti vegna málsins. Fjölnir vill ekki tjá sig um hvort hann vilji sjá hana fara og vísar til þess að það hafi ekki verið rætt formlega í stjórn Landssambands lögreglumanna. Misjafnar skoðanir séu meðal stjórnarmanna.

„Ég veit að Sigríður Björk er skynsöm kona og ég hef átt gott samstarf við hana. Auðvitað hefur hún íhugað það, hún er bara að segja að hún ætli ekki að gera það. En auðvitað hlýtur hún að hafa hugsað um það og hugsa um stöðu ríkislögreglustjóra og allrar lögreglunnar. En hún segist hafa tekið þá ákvörðun að segja ekki af sér en ég trúi ekki öðru en að það hafi nú ekki farið í gegnum hugann allavega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×