Viðskipti innlent

Öll lónin full og vatns­bú­skapur tók stökk­breytingum

Atli Ísleifsson skrifar
Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar. Vísir/Vilhelm

Öll miðlunarlón Landsvirkjunar voru full í upphafi nýs vatnsárs, 1. október síðastliðinn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun. Þar segir að vatnsbúskapurinn hafi tekið stökkbreytingum milli ára og að Þórisvatn hafi fyllst í fyrsta skipti frá 2019.

„Horfur eru því góðar og engar vísbendingar um að skerða þurfi afhendingu á raforku til stórnotenda á komandi vetri, eins og verið hefur raunin undanfarin ár.

Eftir eitt erfiðasta vatnsár í rekstrarsögu Landsvirkjunar er staðan nú allt önnur og betri. Innrennsli nýliðins vatnsárs var sérstaklega gott í Fljótsdal og í Blöndu og var í meðallagi á Þjórsársvæði, sem dugði þó til að fylla Þórisvatn. Niðurdráttur lóna hefst ekki fyrr en í síðustu viku október.

Minni eftirspurn

Á sama tíma og staða vatnsbúskapar er góð er eftirspurn eftir rafmagni talsvert minni en venjulega. PCC, Elkem og Norðurál hafa öll gefið út tilkynningar um skertan rekstur á komandi mánuðum,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×