Íslenski boltinn

Flýta sér hægt og halda spilunum þétt að sér

Valur Páll Eiríksson skrifar
Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, segir stjórnina ekki flýta sér að finna eftirmann Nik Chamberlain.
Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, segir stjórnina ekki flýta sér að finna eftirmann Nik Chamberlain. Samsett/Vísir

Forráðamenn Breiðabliks flýta sér hægt í þjálfaraleit vegna brotthvarfs Englendingsins Nik Chamberlain.

Blikakonur hafa átt frábært tímabil enda vörðu þær Íslandsmeistaratitil sinn og unnu bikarinn í fyrsta sinn frá árinu 2021. Auk þess komust þær áfram í 16-liða úrslit í nýjum Evrópubikar UEFA þar sem liðið mætir Fortuna Hjörring frá Danmörku.

Hvað skilar svona góði sumri?

„Það er náttúrulega frábært lið, góður þjálfari og við reynum að halda sæmilega utan um þetta. Það hafa verið að stíga upp hjá okkur margir ungir leikmenn. Við sáum það gegn Val um síðustu helgi hvað margar ungar og efnilegar stelpur spiluðu. Framtíðin er björt en við byggjum á traustum grunni,“

Þjálfarinn er hins vegar á förum. Nik Chamberlain tekur við Kristianstad í Svíþjóð um áramótin.

Það er væntanlega erfitt að kveðja Nik?

„Það er mjög erfitt. Hann er búinn að vera hjá okkur í tvö ár og skila tveimur Íslandsmeistaratitlum og einum bikarmeistartitli. Það gerist ekki betra. En um leið erum við mjög stolt af því að hann sé að fara frá okkur í stór verkefni erlendis. Við teljum það vera rós í hnappagatið hjá Breiðabliki líka. Við óskum honum að sjálfsögðu alls hins besta í því. Við munum fylgjast spennt með honum,“

Lætur lítið uppi

Nik getur að líkindum klárað komandi Evrópuleiki en leit að eftirmanni stendur yfir. Breiðablik mætir Fortuna Hjörring í 16-liða úrslitum um miðjan nóvember.

„Við erum að flýta okkur hægt. Við ætlum að vanda okkur verulega við það. Auðvitað er erfitt að finna mann sem getur þjálfað meistaralið Breiðabliks. Hann fer núna eftir tímabilið, hvort sem það verður eftir Evrópuleikina, en hvernig það verður nákvæmlega – við höfum ekki fest það í hendi. Það verður gert í fínu samkomulagi, ég hef ekki áhyggjur af því,“ segir Flosi.

Hvernig gengur leitin að eftirmanni?

„Hún gengur ágætlega.“

Hafið þið haft samband við marga?

„Við höfum heyrt í einhverjum.“

Hafið þið tekið einhverja í starfsviðtöl eða slíkt?

„Ég ætla ekkert að fara nákvæmlega inn í það hvernig við erum að gera þetta. En við munum ráða góðan þjálfara,“ segir Flosi sem heldur spilunum þétt að sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×