Innlent

Meiri­hluti hlynntur að­skilnaði ríkis og kirkju

Lovísa Arnardóttir skrifar
Kjósendur Sjálfstæðisflokks eru líklegastir til að vera andvígir aðskilnaði ríkis og kirkju.
Kjósendur Sjálfstæðisflokks eru líklegastir til að vera andvígir aðskilnaði ríkis og kirkju. Vísir/Anton Brink

Alls eru 52 prósent svarenda í könnun Prósents hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju, 27 prósent eru hvorki hlynnt né andvíg og 21 prósent eru andvíg. Þau sem eru á aldrinum 18 til 24 ára eru marktækt hlynntari aðskilnaði ríkis og kirkju en þau sem eru 35 ára og eldri. 65 ára og eldri eru marktækt andvígari aðskilnaði en þau sem eru 54 ára og yngri.

Hæst er hlutfallið hjá yngsta aldurshópnum, þar sem 71 prósent er hlynnt aðskilnaði, en það er lægst hjá 65 ára og eldri þar sem 35 prósent eru hlynnt aðskilnaði. Hjá þeim elstu er einnig hæsta hlutfall þeirra sem eru andvíg aðskilnaði, eða 34 prósent. Lægst er það hlutfall hjá yngsta aldurshópi, 18 til 24 ára, þar sem níu prósent eru andvíg aðskilnaði.

Sjá einnig: Innan við helmingur segist trúaður

Þetta eru niðurstöður könnunar sem Prósent framkvæmdi dagana 16. til 30. september 2025. Spurt var hvort fólk væri hlynnt eða andvígt aðskilnaði ríkis og kirkju.

Hér má sjá mun eftir ólíkum aldurshópum til aðskilnaðar ríkis og kirkju. Prósent

Niðurstöðurnar sýna að þau sem búa á höfuðborgarsvæðinu eru marktækt hlynntari aðskilnaði ríkis og kirkju en þau sem búa á landsbyggðinni. 58 prósent þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu eru hlynnt aðskilnaði en aðeins 39 prósent þeirra sem búa á landsbyggð. 18 prósent höfuðborgarbúa eru andvíg aðskilnaði og 28 prósent landsbyggðarfólks.

Píratar vilja aðskilnað

Mestur stuðningur við aðskilnað er hjá kjósendum Pírata þar sem 89 prósent eru hlynnt aðskilnaði. Þar á eftir eru kjósendur Viðreisnar en 68 prósent þeirra eru hlynnt aðskilnaði og 62 prósent kjósenda Samfylkingar.

Sjá einnig: Fækkar sí­fellt í Þjóð­kirkjunni

Það eru svo kjósendur Framsóknarflokksins, Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem eru líklegust til að vera andvígir aðskilnaði en um 35 til 36 prósent kjósenda þessara flokka eru andvíg. Hærra hlutfall kjósenda Framsóknar og Miðflokks er þó hlynnt aðskilnaði eða 42 prósent. Aðeins 26 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju.

Eins og má sjá er töluverður munur á viðhorfi til aðskilnaðar ríkis og kirkju eftir því hvaða flokka fólk kýs. Prósent

Gögnunum var safnað frá 16. til 30. september 2025 í netkönnun meðal tvö þúsund einstaklinga. Svarhlutfall var 50 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×