Fótbolti

Miklu fljótari upp í fimm­tíu mörkin en bæði Messi og Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Braut Haaland fékk að eiga boltann eftir þrennuna sína í gær en hér er hann með landsliðsþjálfaranum Stale Solbakken.
Erling Braut Haaland fékk að eiga boltann eftir þrennuna sína í gær en hér er hann með landsliðsþjálfaranum Stale Solbakken. EPA/Jonas Fæste Laksekjøn

Norski framherjinn Erling Braut Haaland hélt áfram að bæta við ótrúlega markatölfræði sína í 5-0 sigri á Ísrael í undankeppni HM í gær og er nú kominn með meira en fimmtíu mörk fyrir norska landsliðið.

Haaland klikkaði á tveimur vítaspyrnum í röð í upphafi leiksins í gær en endaði leikinn samt með þrennu þegar Norðmenn stigu stórt skref í átt að lokakeppni HM. Þetta yrði fyrsta stórmót norska karlalandsliðsins í aldarfjórðung og fyrsta heimsmeistaramótið síðan 1998.

Eftir þrennuna á móti Ísrael er Haaland kominn með 51 mark í 46 landsleikjum fyrir Noreg. Hann var langt á undan mestu markaskorum landsliða upp í þennan markafjölda.

Harry Kane náði þessu í 71 leik og Neymar í 74 leikjum. Kylian Mbappé þurfti 90 landsleiki.

Þeir félagar Lionel Messi (107) og Cristiano Ronaldo (114) þurftu líka meira en tvöfalt fleiri landsleiki fyrir þjóð sína til að ná fimmtíu landsliðsmörkum.

Haaland er þegar kominn með tólf mörk í sex leikjum í undankeppni HM 2026 og alls 24 mörk í 17 landsleikjum á síðustu tveimur almanaksárum, 2024 og 2025.

Þessi leikur á móti Ísrael var níundi landsleikurinn í röð hjá Haaland þar sem hann er meðal markaskorara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×