Fótbolti

Lands­liðsþjálfarinn sendi leik­mennina út á lífið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var gaman hjá Erling Haaland og félögum í norska landsliðinu í leiknum sjálfum og örugglega um kvöldið líka.
Það var gaman hjá Erling Haaland og félögum í norska landsliðinu í leiknum sjálfum og örugglega um kvöldið líka. Getty/Halil Sagirkaya

Norðmenn eru millimetrum frá heimsmeistaramótinu næsta sumar eftir 5-0 stórsigur á Ísrael í undankeppni HM í gær. Landsliðsþjálfari vildi að landsliðsmennirnir fengju að njóta góðs árangurs eftir leikinn í Osló í gær.

Norska landsliðið hefur unnið sex fyrstu leiki sína með markatölunni 29-3. Norðmenn spila ekki fleiri leiki í undankeppninni í þessum glugga en tveir síðustu leikirnir verða síðan á móti Eistlandi og Ítalíu í nóvemberglugganum.

Ítalir unnu Eista í gær og eru sex stigum á eftir Norðmönnunum auk þess að eiga leik inni. Markatalan er hins vegar nítján mörkum verri en sú hjá norska liðinu og það er einmitt markatalan en ekki innbyrðis leikir sem ráða verði lið jöfn í riðlinum.

Það er mikið fjör í Noregi eftir þennan frábæra sigur og kvöldið var líflegt á götum Osló í gær.

Landsliðsþjálfarinn Ståle Solbakken krafðist líka þess að leikmenn og starfslið færu út og skemmtu sér á götum Óslóar í nótt.

„Þetta snýst svolítið um að ég hafi gefið þeim lausan tauminn. Ég sagði að ég yrði fyrir vonbrigðum ef ekki allir færu út í kvöld. Það er einn maður sem verður að vera á hótelinu og það er stjórinn,“ sagði Ståle Solbakken á blaðamannafundi eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×