Viðskipti erlent

Raf­myntir hrynja í verði eftir tolla­hótanir

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Bitcoin hefur lækkað í verði um 10 prósent frá því tilkynnt var um tollana.
Bitcoin hefur lækkað í verði um 10 prósent frá því tilkynnt var um tollana. EPA

Helstu rafmyntir heims hafa lækkað mikið í verði eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í gærkvöldi að hundrað prósent tollur yrði lagður á allar vörur frá Kína. Markaðir hafa brugðist illa við tilkynningunni, en S&P vísitalan hefur lækkað um 2,7 prósent og hefur ekki verið lægri síðan 10. apríl þegar tilkynnt var um umfangsmikla tolla. Bitcoin hefur lækkað um 10 prósent í verði síðan í gærkvöldi.

Trump tilkynnti um tollana sem koma til með að leggjast ofan á 30 prósenta toll sem þegar er lagður á vörur frá Kína. Tilkynningin kemur í kjölfar ákvörðunar Kínverja að innleiða tálma á sölu sjaldgæfra málma.

Ráðamenn í Kína greindu frá því í gærmorgun að nýir og umfangsmeiri tálmar yrðu innleiddir á sölu svokallaðra sjaldgæfra málma og allra vara unninna úr þeim. Slíkir tálmar voru einnig settir á útflutning á liþíumrafhlöðum. Sjaldgæfir málmar og vörur unnar úr þeim eru ómissandi fyrir framleiðslu tækni á borð við heilbrigðistæki, rafbíla og smára sem eru undirstaða raftækni nútímans.

Markaðir í Bandaríkjunum hafa brugðist illa við yfirvofandi viðskiptastríði, en auk S&P vísitölunnar lækkaði um 2,7 prósent, Nasdaq vísitalan um 3,56 prósent, og Dow Jones vísitalan um 1,9 prósent.

Rafmyntir hafa einnig lækkað í verði, en Bitcoin hefur lækkað um ríflega 10 prósent, Ethereum um 11,2 prósent, og BNB. Solana, og XRP hafa lækkað um 14,29 prósent, 14,9 prósent, og 17,99 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×