Skoðun

Landbúnaðarrúnk

Hlédís Sveinsdóttir skrifar

„Við erum öll úr sömu sveit“ er falleg yfirskrift sem segir svo margt. Ég les úr henni að samvinna er betri en samkeppni, að við séum öll neytendur og þurfum á landbúnaði að halda - já líka þau sem eru vegan.

Af hverju göngum við þá ekki í takt þegar kemur að landbúnaði. Af hverju er brjóstið á okkur ekki útþanið af stolti yfir framleiðslunni, sérstöðunni og afurðunum? Í því samhengi langar mig að fjalla aðeins um traust. Traust er eitthvað sem er bæði óáþreifanlegt og óendanlega mikilvægt. Ekki er hægt að segja fólki að treysta, heldur verður að ávinna sér traust með gjörðum. Það tekur langan tíma að byggja það upp en oft stuttan tíma að brjóta það niður.

Við erum öll úr sömu sveit og við treystum bændum. Við þekkjum bændur og fyrir hvað þeir standa og flest kunnum við að meta allar þær fjölbreyttu afurðir sem þessir dugmiklu framleiðendur færa okkur. Kannanir sýna að neytendur vilja kaupa íslenskar landbúnaðarafurðir. Það er því sárt þegar milliliðum verður á að brjóta á þessu trausti. Það er fátt sem gerir mig jafn leiða og sjá landbúnaðarrúnk í verslunum. Þegar milliliðir merkja innfluttar afurðir með íslenska fánanum, þegar iðnaður merkir vörur með Beint frá býli hugmyndafræðinni og þegar reynt er að villa um fyrir neytendum á kostnað þess sem framsæknir bændur hafa byggt upp yfir langan tíma. Það er ósiður og það er ósanngjarnt - ekki bara fyrir bændur heldur alla, við erum öll úr sömu sveit.

Mig langar því að biðja ykkur, sem þetta stundið, að láta af þessum ósið. Vörur geta verið góðar þó að þær séu ekki beint úr íslenskri sveit. Leyfið íslenskum bændum að njóta þess trausts sem þau hafa áunnið sér og öðrum vörum að njóta sín á sínum forsendum. Innfluttar eða ekki. Það er engum til framdráttar að rúnka sér á trausti og sérstöðu annarrar greinar. Íslenskur landbúnaður er samvinna okkar allra, ekki samkeppni.

Á morgun, fimmtudaginn 9. okt., er „Dagur landbúnaðarins“. Af því tilefni er haldið málþing á Hótel Borgarnesi og öllum úr sveitinni er boðið.

Höfundur er landbúnaðarunnandi og neytandi.




Skoðun

Sjá meira


×