Körfubolti

LeBron boðar aðra Á­kvörðun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James er að hefja sitt 23. tímabil í NBA. Verður það hans síðasta?
LeBron James er að hefja sitt 23. tímabil í NBA. Verður það hans síðasta? epa/CAROLINE BREHMAN

Stigahæsti leikmaður í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta, LeBron James, boðar stóra tilkynningu á samfélagsmiðlum í dag. Einhverjir telja að hann ætli að greina frá því hvenær skórnir fari á hilluna.

LeBron birti myndband á samfélagsmiðlum í gær þar sést ganga inn í íþróttasal og setjast gegnt öðrum manni. „Ákvörðun allra ákvarðana,“ skrifaði LeBron og meðfylgjandi var mylluverkið „Önnur Ákvörðun“.

LeBron vísar þarna í „Ákvörðunina“ frá 2010, þegar hann tilkynnti í beinni útsendingu á ESPN að hann myndi ganga í raðir Miami Heat frá Cleveland Cavaliers sem hann hafði leikið með allan sinn feril í NBA fram að því.

„Ákvörðunin“ fór misjafnlega í fólk og sérstaklega illa í stuðningsmenn Cleveland sem reiddust LeBron fyrir að snúa baki við liðinu sem er frá heimaríki hans, Ohio. Flestir þeirra fyrirgáfu LeBron reyndar eftir að hann leiddi Cavs til NBA-meistaratitils 2016.

Margir telja að LeBron ætli í annarri Ákvörðuninni að tilkynna að hann muni hætta í körfubolta eftir komandi tímabil. LeBron hefur spilað í NBA frá 2003 og næsta tímabil verður hans 23. í deildinni sem er met.

LeBron hefur leikið með Los Angeles Lakers síðan 2018 og varð meistari með liðinu 2020. Hann vann einnig tvo titla með Miami og einn með Cavs eins og áður sagði.

LeBron, sem verður 41 árs í lok ársins, er stigahæsti leikmaður í sögu NBA með 42.184 stig. Séu stig í deildar- og úrslitakeppni tekin saman eru þau 50.473 hjá LeBron.

Elsti sonur LeBrons, Bronny, er einnig á mála hjá Lakers en hann verður seint talinn föðurbetrungur þegar að körfuboltanum kemur, þótt ágætur sé. Bronny kom við sögu í 29 leikjum í deildar- og úrslitakeppni á síðasta tímabili en lék einnig með South Bay Lakers í þróunardeild NBA.

Lakers mætir Golden State Warriors í fyrsta leik sínum í NBA 21. október.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×