Íslenski boltinn

Upp­gjörið: Breiða­blik - Fram 3-1 | Evrópu­vonir Blika lifa

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kristinn Jónsson lét að sér kveða í kvöld.
Kristinn Jónsson lét að sér kveða í kvöld. Vísir/Diego

Breiðablik lagði Fram 3-1 í 25. umferð Bestu deildar karla í fótbolta. Sigurinn heldur Evrópuvonum Breiðabliks fyrir tímabilið 2026 á lífi þar sem Blikar eru nú þegar í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu.

Breiðablik mátti þola stórt tap í 1. umferð Sambandsdeildarinnar á meðan Fram vann góðan 2-0 sigur á Val í síðustu umferð Bestu deildarinnar. Það var þó ekki að sjá að þeir leikir hefðu nein áhrif á spilamennsku liðanna í kvöld.

Blikar komust yfir snemma leiks þegar Kristinn Jónssón átti fyrirgjöf frá vinstri sem Kyle McLagan, miðvörður Fram, tókst að setja í eigið net án þess að Viktor Freyr Sigurðsson kæmi neinum vörnum við.

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, tvöfaldaði forystuna um miðbik fyrri hálfleiks. Boltinn hrökk fyrir hann við vítateig Fram, fyrirliðinn tók eina snertingu og skilaði boltanum svo af mikilli yfirvegun í netið. Staðan 2-0 þegar fyrri hálfleikur var rétt hálfnaður.

Það stefndi í að staðan yrði 2-0 í hálfleik en upp úr bókstaflega engu minnkaði Jakob Byström muninn þegar fimm mínútur voru til loka fyrri hálfleiks. Kennie Chopart lagði boltann fyrir framherjann unga sem fann leið í gegnum vörn heimamanna og skilaði boltanum í netið.

Í blálok fyrri hálfleiks bætti Kristinn Jónsson við þriðja marki Blika. Aukaspyrna hans fór þá af veggnum og í netið. Síðari hálfleikur var bragðdaufur framan af og virtust liðin búin að sætta sig við stöðuna. Á endanum hótaði Fram því að minnka muninn en það gekk ekki eftir, lokatölur 3-1.

Þegar tvær umferðir eru eftir er Breiðablik í 4. sæti með 39 stig, tveimur minna en Stjarnan sem er sæti ofar. Fram er í 6. sæti með 32 stig.

Atvik leiksins

Það hlýtur að vera fyrsta mark leiksins. Setti ákveðinn tón í leikinn þar sem annað liðið er að eltast við Evrópu á meðan hitt er í raun bara að klára mótið.

Stjörnur og skúrkar

Hinn síungi Kristinn Jónsson skoraði og lagði upp í dag. Hann fær því að vera stjarnan að þessu sinni. Lítið um skúrka nema Kyle sé skúrkur fyrir að setja boltann í eigið net.

Stemmning og umgjörð

La-la stemmning í Kópavogi. Það er við hæfi að á sama tíma hafi fjendur þeirra í Víking tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn. Umgjöriðin þó fín sem alltaf.

Dómarinn

Fínt bara, gott bara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×