Fótbolti

Missir Mbappé af Ís­lands­förinni?

Árni Jóhannsson skrifar
Kylian Mbappé er tæpur en fer líklega til móts við franska landsliðið.
Kylian Mbappé er tæpur en fer líklega til móts við franska landsliðið. Vísir / Getty

Kylian Mbappé komst á blað í 3-1 sigri Real Madrid á Villareal í gærkvöld. Hann skoraði þriðja mark liðsins en fór af velli þegar um sjö mínútur voru eftir af leiknum vegna meiðsla á ökkla.

Vinicius Junior skoraði hin tvö mörkin fyrir Real Madrid en Mbappé lagði annað þeirra upp. Frakkinn er búinn að skora í níu leikjum í röð með franska landsliðinu og Real Madrid og því í miklu stuði og gæti verið mikið áfall ef hann nær ekki landsleikjunum við Ísland og Aserbaídjan um næstu helgi.

Xabi Alonso þjálfari Real Madrid gaf engar yfirlýsingar út eftir leik í viðtölum og hvorki staðfesti né hrakti það að Mbappé væri alvarlega meiddur eða hvort hann væri á leiðinni að draga sig út úr landsliðshópnum.

„Kylian spilaði leikinn með eymsli í ökklanum og við verðum að sjá til. Við þurfum að fylgjast með því hvernig þeim gengur með landsliðinu“, sagði Alonso um stöðuna á frönsku stórstjörnunni.

Ísland mætir Frakklandi mánudaginn 13. október næstkomandi í undankeppni HM 2026 og þó það væri gaman að sjá Kylian Mbappé með berum augum þá getur þetta líka verið mikilvægur leikur í baráttunni um efsta sætið í riðlinum. Öll hjálp er því vel þegin en fyrst þarf íslenska landsliðið að leggja Úkraínu að velli á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×