Íslenski boltinn

„Sér­stak­lega sáttur eftir rang­lætið sem við vorum beittir“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Magnús Már fékk rautt spjald fyrir kjaftbrúk.
Magnús Már fékk rautt spjald fyrir kjaftbrúk. vísir / anton

Magnús Már Einarsson var einstaklega ánægður með sína menn í Aftureldingu eftir að hafa sótt stig á lokamínútunum í 2-2 jafntefli gegn KR, sérstaklega eftir ranglætið sem honum fannst dómararnir hafa beitt gestunum.

„Að ná að jafna hérna í tvígang, krafturinn í okkur síðustu tuttugu mínúturnar. Við eigum þetta stig svo sannarlega skilið finnst mér. KR átti ekki mörg færi í leiknum og að sama skapi fengum við talsvert af stöðum og skorum þessi góðu mörk…

Ég er gríðarlega ánægður með þetta og sérstaklega sáttur eftir ranglætið sem við vorum beittir“ sagði Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir leik og var þá beðinn um að útskýra hvað hann átti við með „ranglætinu“?

Línan breyttist þegar KR þurfti mark

Hann útskýrði þá að línan hafi breyst hjá dómurunum í uppbótartímanum, þegar KR var í leit að sigurmarki.

„Boltinn er úti við hornfána og Luc Kassi er að skýla honum. Hann er frábær í að skýla bolta en er bara togaður niður, Finnur Tómas togar hann niður. Dómarinn dæmdi aukaspyrnu á þetta allan leikinn og mér finnst þetta bara hundrað prósent aukaspyrna. Ég skil ekki alveg afhverju línan á að breytast akkúrat þarna, þegar mikið er undir. KR fær færið í kjölfarið [og jafnar leikinn]“

Játar mistök en hefur ekki áhyggjur

Magnús fékk að líta rautt spjald fyrir mótmæli og verður fjarverandi í næsta leik, sem er væntanlega vont fyrir Aftureldingu. Að missa þjálfarann í næstsíðasta leik tímabilsins þegar liðið er í næstneðsta sæti deildarinnar.

„Jú þetta voru mistök hjá mér, að gera þetta ekki betur. En ég hef svosem engar áhyggjur af því, við erum með frábært þjálfarateymi sem mun stíga upp og við höfum nægan tíma til að undirbúa leikinn“ sagði Magnús og bætti við að lokum að hann hefði engar áhyggjur ef liðið sýnir sömu frammistöðu í næsta leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×