Íslenski boltinn

Frítt inn í kvöld þegar Blikakonur geta orðið Ís­lands­meistarar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Breiðablik tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrra á Hlíðarenda.
Breiðablik tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrra á Hlíðarenda. Vísir/Diego

Breiðablik fær í kvöld þriðja tækifærið á átta dögum til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í Bestu deild kvenna.

Blikar hafa tapað fyrir Stjörnunni (1-2) og Þrótti (2-3) í síðustu tveimur leikjum sínum. Liðið hafði aðeins tapað einu sinni í fyrstu átján leikjum sínum.

Breiðablik mætir Víkingi á Kópavogsvelli klukkan 18.00 í kvöld en það er frítt á völlinn í boði Varðar.

Blikar eru með sjö stiga forskot á FH og Þrótt auk þess að vera með miklu betri markatölu. Forskotið er því eiginlega átta stig þegar níu stig eru eftir í pottinum. Sigur í kvöld þýðir að titilinn er í höfn.

„Okkar stúlkur hafa hins vegar ekki náð að sýna sitt besta enda umfjöllun og tal um titil búin að vera óþarflega mikil,“ segir í frétt á heimasíðu Blika.

Kvennalið Breiðabliks getur varið Íslandsmeistaratitil sinn og jafnframt unnið tuttugasta Íslandsmeistaratitil sinn í sögunni.

Breiðablik vann sinn fyrsta titil árið 1977 en gæti náð sex titla forskoti á Val takist liðinu að landa þessum titli. Þetta yrði líka í tíunda skiptið í sögunni sem Blikar næðu að verja Íslandsmeistaratitilinn en það gerðu þær líka 1980, 1981, 1983, 1983, 1991, 1992, 1995, 1996 og 2001.

Blikakonur myndu jafnframt vinna tvöfalt í níunda sinn en það gerðu þær einnig 1981, 1982, 1983, 1994, 1996, 2001, 2005 og 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×