Viðskipti erlent

Rúm­lega þriðjungs sam­dráttur í olíu­vinnslu í Rúss­landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Fregnir af bensínskorti hafa borist frá mörgum héruðum Rússlands og hagsmunasamtök eigenda bensínstöðva vara við því að ástandið sé alvarlegt.
Fregnir af bensínskorti hafa borist frá mörgum héruðum Rússlands og hagsmunasamtök eigenda bensínstöðva vara við því að ástandið sé alvarlegt. EPA/MAXIM SHIPENKOV

Framleiðslugeta Rússa á olíu hefur dregist verulega saman og er það að miklu leyti vegna árása Úkraínumanna á olíuvinnslur og tengda innviði. Langan tíma gæti tekið að leysa vandamálið en fregnir af löngum röðum við bensínstöðvar verða sífellt algengari og bensínverð hefur hækkað mjög.

Rússneskir miðlar sögðu frá því í dag að undir lok september hafi framleiðslugetan dregist saman um 338 þúsund tonn af olíu á dag. Það eru um 38 prósent af allri framleiðslugetu Rússlands á olíu.

Drónaárásir Úkraínumanna eru helsta ástæðan fyrir ástandinu en um sjötíu prósent af samdrættinum er til kominn vegna þeirra. Hin þrjátíu prósentin eru sögð til komin vegna bilana og annarra ástæðna.

Talið er að viðgerðir gætu tekið langan tíma og hefur almennu viðhaldi á vinnslustöðvum víða verið frestað til að sporna gegn samdrættinum. Það gæti haft slæm áhrif til lengri tíma.

Fregnir af vandræðum við olíuframleiðslu í Rússlandi hafa heyrst reglulega á undanförnum vikum og mánuðum, samhliða mikilli aukningu í árásum Úkraínumanna á vinnslustöðvar og olíuinnviði í Rússlandi.

Sjá einnig: Nálægt því að draga úr flæðinu vegna drónaárása

Yfirvöld í Rússlandi tilkynntu í gær að framlengja ætti útflutningsbann á bensíni og setja takmarkanir á sölu dísilolíu frá Rússlandi út árið. Markmiðið væri að koma stöðugleika á eldsneytismarkað í landinu.

Fregnir af bensínskorti hafa orðið tíðar á undanförnum vikum og þá sérstaklega frá austurhluta Rússlands og hernumdum svæðum í Úkraínu, samkvæmt fólki sem hefur verið að fylgjast með þeim fregnum.

Á Krímskaga má enginn kaupa meira en tuttugu lítra af eldsneyti, samkvæmt Kommersant.

Á blaðamannafundi sem haldinn var í dag sagði Alexander Novak, aðstoðarforsætisráðherra, að takmarkanir á sölu eldsneytis úr landi yrðu felldar niður þegar framleiðsla færi aftur fram úr innlendri eftirspurn.

Samkvæmt TASS fréttaveitunni sagði Novak einnig að stjórnvöld Rússlands hefðu tök á ástandinu og orkumálaráðuneytið ynni með ráðamönnum í öllum héruðum landsins til að tryggja að nægar birgðir væru til.

Forsvarsmenn hagsmunasamtaka bensínstöðva í Rússlandi vöruðu þó við því á dögunum, í bréfi sem sent var til Novaks, að vegna samdráttar í framleiðslu, hækkandi bensínverðs og tafa á sendingum, væri mikil hætta á því að sjálfstætt reknar bensínstöðvar yrðu gjaldþrota í náinni framtíð.

Kommersant hefur eftir forsvarsmönnum samtakanna að þegar væri búið að loka þó nokkrum slíkum bensínstöðvum.

Eldur kviknaði í einni af stærri olíuvinnslustöðvum Rússlands í morgun. Ríkisstjóri héraðsins sagði að um slys væri að ræða en ekki árás og hafa engin myndbönd af drónum á sveimi þar verið í dreifingu á samfélagsmiðlum í dag, eins og gerist iðulega í slíkum árásum.


Tengdar fréttir

Ná ekki að leika árangur Wagner eftir

Rúmum tveimur árum eftir dauða Jevgenís Prígósjín, rússnesks auðjöfurs og eiganda málaliðahópsins Wagner, hefur staða Rússa í Afríku versnað töluvert. Nýi málaliðahópur Rússa, Afríkudeildin, sem rekinn er af varnarmálaráðuneytinu hefur ekki skilað sama árangri og Wagner gerði á sínum tíma, hvorki með tilliti til hagnaðar eða áhrifa.

NATO og Rússland „augljóslega“ í stríði

Atlantshafsbandalagið og Rússland eiga „augljóslega“ í stríði. Þetta sagði Dmitrí Peskóv, talsmaður Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, við blaðamenn í Moskvu í morgun. Stuðningur margra ríkja NATO við Úkraínu jafngilti  að bandalagið væri í raun og veru stríð við Rússland. Það væri augljóst að stríðsástand ríkti.

Drónaárás á eina stærstu olíuvinnslu Rússlands

Úkraínumenn gerðu í dag flygildaárás á eina stærstu olíuvinnslustöð Rússlands. Haft er eftir rússneskum embættismönnum að eldur hafi kviknað út frá sprengingunni en að tjónið sé minniháttar.

Skipar NATO-ríkjum að hætta að kaupa olíu af Rússum

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist tilbúinn að ráðast í þungar refsiaðgerðir gegn Rússlandi ef öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hætta að kaupa olíu af Rússlandi. Tyrkland er eitt af stærstu kaupendum rússneskrar olíu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×