Innherji

Vara við á­hrifum verð­leiðréttingar á er­lenda fjár­mögnun ís­lenskra fé­laga

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður fjármálastöðugleikanefndar, og Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika.
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður fjármálastöðugleikanefndar, og Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika. Vísir/Anton Brink

Alþjóðlegir eignamarkaðir eru hátt verðlagðir um þessar mundir og því gæti „snörp verðleiðrétting“ haft neikvæð áhrif á bæði aðgengi og kjör íslenskra fyrirtækja þegar kemur að erlendri fjármögnun, að sögn fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans. Nefndin leggur sérstaka áherslu á mikilvægi þess að vera með sterka erlenda stöðu og öflugan gjaldeyrisforða nú þegar „umtalsverð“ óvissa er í alþjóðamálum.

Í yfirlýsingu sem nefndin sendi frá sér í morgun er sem fyrr undirstrikað að fjármálakerfið hér á landi standi traustum fótum. Þannig sé bæði eiginfjár- og lausafjárstaða stóru bankanna sterk og aðgengi þeirra að markaðsfjármögnun greitt. Hins vegar sé veruleg óvissa á vettvangi alþjóðamála og langtímavextir hafa víða hækkað vegna vaxandi efasemda um sjálfbærni opinberra fjármála.

„Alþjóðlegir eignamarkaðir eru hátt verðlagðir og snörp verðleiðrétting gæti haft áhrif á aðgengi og kjör íslenskra fyrirtækja á erlendri fjármögnun. Óvissa á alþjóðavettvangi undirstrikar mikilvægi ríflegs gjaldeyrisforða og traustrar erlendrar eignastöðu þjóðarbúsins,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

Umtalsverð óvissa er þó í alþjóðamálum og langtímavextir hafa víða hækkað vegna vaxandi efasemda um sjálfbærni opinberra fjármála.

Hún bætir hins vegar við að staða kerfislægu mikilvægu bankanna – Arion, Íslandsbanka og Landsbankans – sé traust og erlend fjármögnunarskilyrði eru enn hagstæð um þessar mundir. Álagspróf Seðlabankans, sem var birt í liðinni viku, bendir til þess að þeir hefðu nægan viðnámsþrótt til að viðhalda framboði lánsfjár og styðja við hagkerfið í alvarlegu áfalli. Að sögn fjármálastöðugleikanefndar er mikilvægt að bankarnir séu áfram með sterka eiginfjárstöðu og nægt laust fé til að takast á við möguleg áföll.

Heimild: Fjármálastöðugleiki 2025/2.

Þrátt fyrir viðverandi verðbólgu, sem hefur mælst í kringum fjögur prósent núna um nokkurt skeið, og háa raunvexti – þeir hafa núna verið á bilinu um 3,5 til 4 prósent í átján mánuði – þá hafa heimili og fyrirtæki „heilt yfir“ viðhaldið viðnámsþrótti sínum. „Hóflegur skuldavöxtur og traust eiginfjárstaða, sem meðal annars má rekja til þétts taumhalds þjóðhagsvarúðarstefnunnar, hafa átt sinn þátt í að vanskil eru enn lítil,“ undirstrikar nefndin.

Þá bendir hún einnig á að dregið hafi úr hækkun húsnæðisverðs – á ársgrundvelli er hækkunartakturinn núna rétt yfir tvö prósent á höfuðborgarsvæðinu – og spenna á húsnæðismarkaði minnkað. „Framboð er töluvert og lengur tekur að selja húsnæði en áður, sér í lagi nýbyggingar. Velta á húsnæðismarkaði er þó enn talsverð og kaupendum fyrstu fasteignar hefur fjölgað“.

„Vaxandi ógn“ við rekstrar- og netöryggi fjármálainnviða

Fjármálastöðugleikanefndin tekur einnig sterkt til orða þegar kemur að „vaxandi ógn“ við rekstrar- og netöryggi fjármálainnviða sem er fylgifiskur mikillar óvissu í alþjóðamálum og tæknivæðingar á fjármálamarkaði. Áfram sé þörf á því, að sögn nefndarinnar, að efla viðbúnað fyrir mikilvæga innviði og vinna markvisst að því að auka viðnámsþrótt í greiðslumiðlun.

Að lokum segir í yfirlýsingunni að ákveðið hafi verið halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu í 2,5 prósent í samræmi við stefnu nefndarinnar um beitingu aukans. Nefndin muni sem fyrr beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika þannig að fjármálakerfið geti staðist áföll, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.


Tengdar fréttir

Raun­gengi krónunnar lítil­lega yfir­verðlagt að mati AGS og Seðla­bankans

Þótt raungengi krónunnar sé búið að rísa hratt að undanförnu, sem hefur þrengt nokkuð að samkeppnishæfni margra útflutningsfyrirtækja, þá er það aðeins nokkrum prósentum hærra en nemur nýlegi mati Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á jafnvægisraungenginu. Með hliðsjón af því er ekki endilega líklegt að mikil leiðrétting verði á genginu á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×