Enski boltinn

Arteta fyrstur í fimm deildar­leiki í röð án taps gegn Guar­diola

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vildi þrjú stig í dag.
Vildi þrjú stig í dag. EPA/VINCE MIGNOTT

Mikel Arteta er fyrsti þjálfari sögunnar til að spila fimm deildarleiki í röð gegn liði Pep Guardiola án þess að tapa. Skytturnar hans Arteta gerðu 1-1 jafntefli við Manchester City í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Arteta og hans menn voru heppnir að ná í stig en jöfnunarmarkið kom undir lok leiks. Sá spænski ræddi við fjölmiðla að leik loknum. Hann vissi ekki af „metinu.“

„Ég vissi það ekki, en ég vildi vinna. Þetta gerir mig ekki glaðan, það sem ég vildi í dag var að vinna leikinn.“

Eberechi Eze og Bukayo Saka komu inn af bekknum í hálfleik. Gestirnir voru þá 1-0 yfir en Eze lagði á endanum upp jöfnunarmarkið sem Gabriel Martinelli - annar varamaður – skoraði.

„Skiptingarnar voru nauðsynlega því Noni Madueke var meiddur og fyrir Eze vegna leikstílsins þeirra (Man City). Við töldum Eze geta fundið plássið og að hann gæti gert gæfumuninn. Aftur er ég mjög ánægður með þá sem klára leikinn.“

Að lokum var Arteta spurður í að finna réttu blönduna fyrir réttu leikina.

„Hjá stærstu félögunum þurfa allir þjálfarar að glíma við þetta. Í dag vorum við án Martin Ödegaard, Saka var að snúa til baka, enginn Gabriel Jesus og enginn Kai Havertz. Við munum þurfa á öllum að halda.“

„Í dag sjáum við leikmenn sem byrjuðu ekki gegn Bilbao (í Meistaradeild Evrópu í miðri viku) spila virkilega vel. Bæði William Saliba og Leandro Trossard, báðir áttu mjög góðan leik. Svo margir leikir, við munum þurfa alla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×