Fótbolti

„Vissi ekki hvernig ég ætti að haga mér“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir var í banastuði fyrir Blika í dag. 
Berglind Björg Þorvaldsdóttir var í banastuði fyrir Blika í dag.  Vísir/Óskar Ófeigur

Berglind Björg Þorvaldsdóttir gerði sér lítið fyrir og skoraði fimm mörk í glæsilegum sigri Breiðabliks á móti Þór/KA í Bestu-deild kvenna í fótbolta á Kópavogsvelli í dag. 

„Við spiluðum vel í þessum leik og vorum síógnandi allan leikinn. Ég náði að nýta færin sem samherjarnir voru að skapa fyrir mig. Það er gríðarlega gaman að vera hluti af þessu liði þegar hlutirnir ganga upp. 

Við fengum framlag frá mörgum leikmönnum í sóknarleiknum og þá er erfitt að ráða við okkur,“ sagði Berglind Björg sem varð í dag markahæsti leikmaður í sögu Breiðbliks. Berglind Björg komst upp fyrir Ástu B. Gunnlaugsdóttur á toppi þess lista. Ásta skoraði 195 mörk í 189 leikjum á sínum tíma en Berglind Björg er núna komin með 198 mörk fyrir Blika.  

„Þetta er stór áfangi sem að ég er auðvitað ofboðslega stolt af. Það er mikll heiður að vera nefnd í sömu setningu og Ásta B. Gunnlaugsdóttir sem er auðvitað bara goðsögn hja bæði Breiðablik og í íslenskum fótbolta. 

Ég vissi ekkert hvernig ég ætti að haga mér þegar þetta var tilkynnt í hátalarakerfinu og ég heyrði köllin úr stúkunni. Þetta var mjög skemmtileg og eftirminnileg stund,“ sagði Berglind um tilfinninguna að vera komin á þennan stall. 

„Ég man ekki eftir því að hafa skorað fimm mörk áður í leik í meistaraflokki og þetta var bara mjög gaman. Ég er með góða leikmenn í kringum mig sem aðstoða mig við að skora þessi mörk. Eins og áður segir þá var sóknarleikurinn frábær að þessu sinni,“ sagði markadrottningin sem er nú markahæst í deildinni með 20 mörk. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×