Kátt á hjalla í Kata­lóníu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Börsungar fagna.
Börsungar fagna. EPA/Alejandro Garcia

Spánarmeistarar Barcelona unnu þægilegan 3-0 sigur á Getafe í síðasta leik dagsins í La Liga, efstu deild karla í fótbolta þar í landi.

Eftir 2-0 sigur gegn Newcastle United í Meistaradeild Evrópu í miðri viku ákvað Hansi Flick að hrista aðeins í leikmannahópi sínum. Maðurinn bakvið mörkin í Norður-Englandi, Marcus Rashford, fékk sér sæti á bekknum og leyfði öðrum að njóta sín í kvöld.

Heimamenn í Barcelona voru með öll tök á vellinum frá því að leikurinn var flautaður á og þangað til hann var flautaður af. Ferran Torres heldur áfram að gera það gott í La Liga og skoraði eftir undirbúning Dani Olmi þegar stundarfjórðungur var liðinn.

Torres bætti við öðru marki sínu á 34. mínútu að þessu sinni eftir undirbúning Raphinha. Staðan 2-0 í hálfleik.

Rashford kom inn fyrir Raphinha í hálfleik. Þegar rúm klukkustund var liðin gaf Rashford á Olmo sem skoraði þriðja mark meistaranna og þar við sat, lokatölur í Katalóníu 3-0.

Barcelona er nú með 13 stig að fimm umferðum loknum, tveimur minna en topplið Real Madríd sem er með fullt hús stiga.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira