Innlent

Fór inn á heimili, klæddi sig úr fötunum og sofnaði í stól

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í nótt.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til í gærkvöldi eða nótt þegar húsráðandi leitaði aðstoðar vegna einstaklings sem hafði farið inn á heimilið, klætt sig úr fötunum og sofnað í stól.

Skemmst er frá því að segja að húsráðandinn kannaðist ekki við einstaklinginn og óskaði eftir því að hann yrði fjarlægður af heimilinu.

Lögregla vakti viðkomandi og benti honum á að hann ætti ekki heima á staðnum. Var honum gert að klæða sig og koma sér út, sem hann og gerði.

Lögregla var einnig kölluð til vegna annars einstaklings í annarlegu ástandi en sá reyndist vera með meint þýfi á sér. Sá var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Þá var einn handtekinn sem hafði brotist inn og komið sér fyrir inni á sameign. Hann reyndist eftirlýstur vegna annars máls.

Þrjár tilkynningar bárust vegna samkvæmis- og tónlistarhávaða og þá var tilkynnt um þjófnaði í verslunum og innbrot í fyrirtæki. Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni og einn sektaður fyrir notkun nagladekkja en notkun þeirra er bönnuð út október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×