Erlent

Menningar­mála­ráð­herrann ó­sáttur og vill skrúfa fyrir fjár­magn til ísraelsku kvikmyndaverðlaunanna

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Menningarmálaráðherrann Miki Zohar var ekki allskostar ánægður með val ísraelsku kvikmyndaakademíunnar að þessu sinni og hótar að skrúfa fyrir fjárstuðning ríkisins. 
Menningarmálaráðherrann Miki Zohar var ekki allskostar ánægður með val ísraelsku kvikmyndaakademíunnar að þessu sinni og hótar að skrúfa fyrir fjárstuðning ríkisins.  Vísir/EPA

Menningarmálaráðherra Ísraels hefur hótað algjörum niðurskurði á fjárframlögum til ísraelsku kvikmyndaverðlaunanna eftir að mynd um palestínskan dreng hreppti aðalverðlaun hátíðarinnar í fyrradag.

Ophir verðlaunin eru á pari við Edduna á Íslandi eða Óskarsverðlaunin í Bandaríkjunum og að þessu sinni var það kvikmyndin Hafið sem þótti best. Hún fjallar um tólf ára gamlan dreng frá Vesturbakkanum sem vill ferðast til Tel Aviv til þess að sjá hafið í fyrsta sinn.

Hann lendir hinsvegar í ógöngum þegar hann reynir að komast í gegnum öryggishlið sem aðskilur Vesturbakkann frá Ísrael og er meinaður aðgangur af hermönnum.  Drengurinn laumast síðar inn fyrir hliðið og faðir hans reynir svo að hafa upp á honum.

Myndin fjallar um dreng sem dreymir um að sjá hafið með berum augum.

Miki Zohar, sem gegnir stöðu menningarmálaráðherra í ríkisstjórn Benjamíns Netanjahú brást ókvæða við þegar Hafið bar sigur úr býtum. Hann sendi frá sér yfirlýsingu á samfélagsmiðlinum X þar sem hann segir verðlaunin blauta tusku í andlit ísraelskra borgara og að á hans vakt muni ísraelsk stjórnvöld ekki fjármagna hátíð sem hræki framan í hetjur ísraelshers, eins og hann orðaði það.

Að óbreyttu mun Hafið verða framlag Ísraela til bestu erlendu myndarinnar á næstu Óskarsverðlaunum og í raun er óljóst hvort menningarmálaráðherrann hafi vald til að skrúfa fyrir fjármagn til verðlaunahátíðarinnar, að því er segir í umfjöllun BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×